Innlent

Kennarar fá 7,3 prósenta launahækkun strax

ingvar haraldsson skrifar
Frá samningafundi kennara og fulltrúa sveitarfélaga hjá ríkissáttasemjara
Frá samningafundi kennara og fulltrúa sveitarfélaga hjá ríkissáttasemjara Vísir/GVA
Heimildir Vísis herma að samkvæmt nýjum kjarasamningi  kennara muni kennarar fá 7,3 prósenta launahækkun 1. júni ásamt frekari launahækkunum þegar líður á samningstímann. Samningurinn mun gilda út árið 2016.

Kennurum verður einnig boðið að afsala sér aldursafslætti gegn um 9 prósenta launahækkun. Aldursafsláttur kennara felst í að 55 ára kennarar fá að fækka kennslustundum um ríflega eina klukkustund á viku. Sextugir kennarar geta svo fækkað kennslustundum um tæplega fimm stundir á viku.  

Í kjarasamningnum verður einnig kveðið á um breytingar á starfi kennarans.

Ólafur Loftsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir að stofnaður verði starfshópur sem fer yfir starf kennarans. „Starfshópurinn mun starfa til áramóta og fara yfir kennarastarfið. Vinnuframlag kennara verður skoðað ásamt því hvernig samstarf kennara gengur fyrir sig. Starfshópurinn mun einnig skoða kennarastarfið út frá bekkjarstærð, viðfangsefni, námsgetu nemenda og álagi á kennara.“

Ólafur er bjartsýnn á framhaldið. „Við bindum vonir við að nýr kjarasamningur muni auka sveigjanleika í skólastarfi.“

Starfshópurinn verður skipaður fulltrúum Kennarasambands Íslands og sveitarfélaga á Íslandi. Hópurinn mun starfa fram til áramóta. Í febrúar 2015 munu kennarar kjósa um tillögur hópsins.

Ólafur Loftsson segir að kjarasamningurinn verði birtur opinberlega á morgun. Í kjölfarið munu kennarar greiða atkvæði um kjarasamninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×