Enski boltinn

Di Matteo snýr aftur á Stamford Bridge

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Di Matteo snýr aftur á kunnulegar slóðir
Di Matteo snýr aftur á kunnulegar slóðir Nordic Photos/AFP
Allt útlit er fyrir að Ítalinn Roberto Di Matteo verði hægri hönd André Villas-Boas hjá enska úrvalsdeildarliðinu Chelsea. Þjálfarateymi Portúgalans verður kynnt í dag og vekur ráðning Di Matteo mesta athygli. Guardian greinir frá þessu á heimasíðu sinni.

Di Matteo var síðast þjálfari West Bromwich Albion en hann kom liðinu í ensku úrvalsdeildina í fyrstu tilraun sinni. Þrátt fyrir það var hann látinn fara frá félaginu í febrúar síðastliðnum en árangurinn þótti ekki nógu góður.

Di Matteo þekkir vel til á Stamford Bridge. Hans er helst minnst fyrir glæsimark sitt í úrslitaleik FA-bikarins árið 1997 sem hann skoraði eftir aðeins 42 sekúndur. Það var met þar til Louis Saha gerði gott betur gegn Chelsea fyrir rúmu ári. Meiðsli bundu enda á flottan feril Di Matteo þegar hann þríbrotnaði á fæti í Evrópuleik með Chelsea aðeins 31 árs að aldri.

Auk Di Matteo fylgja José Mario Rocha og Daniel Sousa portúgalska þjálfaranum úr þjálfarateymi hans hjá Porto. Villas-Boas hafði hug á því að halda hægri hönd sinni hjá Porto, Vitor Pereira, en þau áform runnu út í sandinn þegar Pereira tók við þjálfarastarfinu hjá Porto nýverið.

Þá er talið líklegt að Eddie Newton, annar fyrrverandi leikmaður Chelsea, verði hluti af þjálfarateyminu. Newton hefur unnið náið með Di Matteo undanfarin ár og talið líklegt að hann sé hluti af pakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×