Erlent

Hátt í sjö hundruð handteknir í Kaupmannahöfn

Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur nú handtekið 675 manns í tengslum við óeirðirnar vegna niðurrifs Æskulýðshússins á Norðurbrú í borginni. Jótlandspósturinn hefur eftir lögreglu að nítján manns hafi verið handteknir í gærkvöld og nótt og þá voru sex handteknir í morgun fyrir að kveikja í bíl.

Í nógu hefur verið að snúast í réttarsölum Kaupmannahafnar þar sem dómarar hafa vart haft undan að framlengja gæsluvarðhaldsúrskurði yfir fólki sem handtekið var í óeirðunum. Liðlega 30 útlendingar, sem setið hafa í gæsluvarðhaldi í þrjá daga, voru leiddir fyrir dómara í dag og var hluti hópsins úrskurðaður í þriggja daga varðhald til viðbótar en flestir í vikuvarðhald. Þann tíma ætlar lögreglan að nota til að kanna hvort ástæða sé til að ákæra fólkið eða einfaldlega senda það úr landi.

Reiknað er með að niðurrifi Æskulýðshússins, sem hófst í gær, ljúki síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×