Fótbolti

Willum heldur áfram að spila og komst í bikarúrslit

Sindri Sverrisson skrifar
Willum Þór Willumsson í leik með U21-landsliðinu.
Willum Þór Willumsson í leik með U21-landsliðinu. VÍSIR/BÁRA

Hvít-Rússar hafa ekkert hlé gert á fótbolta vegna kórónuveirufaraldursins og Willum Þór Willumsson hefur því einn Íslendinga verið að spila alvöru fótbolta síðustu vikurnar. Hann komst í kvöld í bikarúrslit.

Willum kom inn á sem varamaður á 78. mínútu þegar lið hans BATE Borisov vann 2-0 sigur á Slavia. Um seinni undanúrslitaleik liðanna var að ræða en Slavia hafði unnið 1-0 á heimavelli svo BATE vann einvígið 2-1. Samkvæmt Soccerway fór leikurinn í dag fram fyrir framan 761 áhorfanda í Borisov.

BATE mætir Dinamo Brest í bikarúrslitaleiknum. Dinamo Brest varð hvítrússneskur meistari á síðustu leiktíð þegar liðið endaði fimm stigum fyrir ofan BATE.

Willum og félagar eru í 4. sæti hvítrússnesku deildarinnar, eftir sex umferðir, og leika þar næst á sunnudaginn þegar þeir mæta Neman Grodno sem er í 10. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×