Innlent

Veltir upp hugmyndinni um að ríkið eignist ráðandi hlut í Icelandair

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingar.
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingar.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, setti fram hugleiðingar sínar um Icelandair í stöðuuppfærslu sinni á Facebook. Þar varpaði hann fram þeirri spurningu hvort réttast væri hreinlega að ríkið eignaðist ráðandi hlut í Icelandair Group í ljósi þess að félagið sé þjóðhagslega mikilvægt. Fjöldauppsagnir voru tilkynntar hjá félaginu í gær. Raunar var um að ræða stærstu hópuppsögn Íslandssögunnar.

„Í gær var ákveðið að fjármagna uppsagnir þess fyrirtækis með allt að 7 milljörðum af skattfé og er sá styrkur í raun helmingur af núverandi markaðsvirði Icelandair sem er núna undir 14 milljörðum kr.“ skrifar Ágúst sem spyr hvort ekki hefði verið nær að ríkið eignaðist hlut samhliða ríkisaðstoðinni.

Hann vísar í fordæmi hjá evrópskum þjóðum og á Nýja-Sjálandi máli sínu til stuðnings. Þannig á finnska ríkið ráðandi hlut í Finnair, Hollenska ríkið í KLM og franska ríkið í Air France. Þá séu þýsk stjórnvöld að íhuga kaup í Lufthansa.

„Við sem þjóð stöndum nú frammi fyrir neyðarástandi eins og í bankahruninu en þá yfirtókum við bankana, lífæð okkar í fjármálum. Nú er annað þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki að riða til falls, fyrirtæki sem er lífæð okkar í samgöngum,“ skrifar Ágúst.

Með eignarhlut ríkisins í Icelandair væri hægt að verja störf og starfsemi. Þá gæti almenningur hagnast á öflugu flugfélagi sem gæti náð flugi á nýjan leik, hratt og örugglega.


Tengdar fréttir

Telur að vandræði flugbransans séu rétt að byrja

Guillaume Faury, framkvæmdastjóri evrópska flugvélaframleiðandans Airbus, telur að sú niðursveifla sem flugbransinn um víða veröld stendur nú frammi fyrir vegna útbreiðslu kórónuveirunnar sé enn á frumstigi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×