Erlent

Vilja ekki muna atburðina á Torgi hins himneska friðar

BBI skrifar
Nú eru 23 ár frá fjöldamorðunum í Kína á Torgi hins himneska friðar. Þá stöðvuðu kínversk stjórnvöld fjölmenn mótmæli með hervaldi. Í dag hafa stjórnvöld í Kína handtekið aðgerðarsinna og aukið alla gæslu til að koma í veg fyrir að minnt verði á atburðina.

Kínverskar leitarsíður á netinu hafa sömuleiðis verið ritskoðaðar. Hvergi koma fram upplýsingar um atburðina. Ef maður leitar að orðum eins og „sjötti júní" „23" eða „aldrei gleyma" kemur ekkert upp.

Umræða um atburðina hefur alltaf verið forboðin í landinu. Sú umræða er tekin sérlega föstum tökum í dag. Sérfræðingar telja ritskoðunina óvenju mikilvæga um þessar mundir þar sem ríkisstjórnin býr sig undir að nýir valdhafar taki við völdum.

Vegna þess að 23 ár eru frá fjöldamorðunum sendi bandaríska ríkisstjórnin formlega ósk í gær til stjórnvalda í Kína um að þeir sem enn eru í fangelsi síðan atburðirnir áttu sér stað yrðu leystir úr haldi. Mannréttindasamtök telja innan við tólf manns enn í haldi frá atburðunum árið 1989. Kínversk stjórnvöld tóku mjög illa í þá hugmynd að frelsa þá og lýstu mikilli óánægju með bónina.

Eftir rúmlega mánaðar mótmæli árið 1989 stráfelldu stjórnvöld í Kína mótmælendur á Torgi hins himneska friðar. Þetta gerðist 4. júní. Aldrei hefur verið gefið upp hve margir létust í mótmælunum en tala fallinna er almennt talin á bilinu nokkur hundruð til allt að 7000 manns.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá ungan mann ganga í veg fyrir skriðdreka daginn eftir að fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar áttu sé stað. Atvikið vakti mikla athygli. Ekki er vitað hver örlög mannsins urðu.

Hér og hér er fjallað um málið á fréttamiðli BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×