Thierry Henry gat lítið spilað með Arsenal á síðustu leiktíð vegna meiðsla en hann fullvissar stuðningsmenn Barcelona um að hann sé enginn meiðslakálfur. Hann segir þvert á móti að fjarvera hans á síðustu leiktíð geti hjálpað honum á næsta tímabili.
"Meiðsli mín á síðustu leiktíð voru þau fyrstu alvarlegu á mínum ferli og það geta allir séð. Ég flaug í gegn um læknisskoðunina hjá Barcelona og því verð ég klár í slaginn á næstu leiktíð. Ég er ekki frá því að það geri mér gott á næstu leiktíð að hafa ekki spilað mikið í fyrra," sagði Henry, sem varð fyrir vikið af miklu af því álagi sem fylgir löngu og ströngu tímabili í ensku úrvalsdeildinni.