Fótbolti

Hitzfeld: Verður erfiðari leikur en gegn Noregi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ottmar Hitzfeld þjálfaði Sigurð Grétarsson hjá Grasshoppers á sínum tíma. Þeir endurnýjuðu kynnin á Grand Hótel í gær.
Ottmar Hitzfeld þjálfaði Sigurð Grétarsson hjá Grasshoppers á sínum tíma. Þeir endurnýjuðu kynnin á Grand Hótel í gær. fréttablaðið/anton
Ottmar Hitzfeld, þjálfari svissneska landsliðsins, reiknar með því að Ísland muni reynast Sviss erfiður andstæðingur í leik liðanna í undankeppni HM 2014 í kvöld.

„Við höfum tekið því rólega síðustu dagana enda var leikurinn á föstudaginn erfiður,“ sagði hann á blaðamannafundi sem haldinn var á Grand Hótel í gær. Sviss gerði þá 1-1 jafntefli við Noreg þar sem bæði mörkin voru skoruð á síðasta stundarfjórðungi leiksins.

„Þetta var hraður leikur sem tók mikið á. Æfingarnar hafa því verið rólegar og við munum gera allt til þess að leikmenn verði í sínu besta formi í leiknum á morgun.“

Hitzfeld, sem er 63 ára gamall, er einn reyndasti starfandi þjálfarinn í Evrópu í dag. Hann hefur á þriðja tug titla á þjálfaraferlinum, flesta með Grashopper í Sviss og þýsku liðunum Dortmund og Bayern München. Hann hefur þjálfað svissneska landsliðið frá 2008 og fór með liðið á HM 2010 í Suður-Afríku, þar sem það varð eina liðið til að vinna verðandi heimsmeistara Sviss í allri keppninni.

Hitzfeld hefur tvívegis verið valinn þjálfari ársins af FIFA og einu sinni af UEFA. Stuðningsmenn Bayern útnefnda hann besta þjálfara félagsins frá upphafi 2005 og er einn aðeins þriggja félaga til að verða Evrópumeistari með tveimur mismunandi félögum. Hinir eru Jose Mourinho og Ernst Happel.

Þessi öflugi þjálfari stefnir að því að fara með Sviss til Brasilíu árið 2014 og er liðið enn ósigrað í undankeppninni. Þó svo að Sviss hafi tapað sínum fyrstu stigum gegn Noregi á föstudag sagði Hitzfeld að sá leikur hafi verið sá besti hjá hans mönnum til þessa.

„Við spiluðum vel. Leikurinn var hraður en við hreyfðum okkur vel, vorum með góðar staðsetningar og brugðust vel við þeirra spili. En það er erfitt að spila við vegg,“ sagði hann.

„Við fáum meira pláss í leiknum gegn Íslendingum. Þeir spila hratt, standa framarlega með lið sitt og pressa vel á andstæðinga sína. Þetta verður erfiðari leikur en gegn Noregi.“

Hitzfeld var spurður um styrkleika leikmanna íslenska liðsins og var greinilegt að hann var búinn að kynna sér andstæðinginn vel.

„Ísland er með marga sterka einstaklinga. Gylfi Sigurðsson hefur sýnt hversu öflugur skotmaður hann er. Alfreð Finnboagson er ungur sóknarmaður með mikla hæfileika. Rúrik Gíslason, hægri kantmaður, býr yfir mikilli tækni. Svo er Aron Gunnarsson í leikbanni og verður ekki auðvelt að finna staðgengil fyrir hann. En Birkir Bjarnason er leikmaður sem getur vel spilað á miðjunni. Þetta er öflugt sóknarlið.“

„Í vörn eru Íslendingar með stóra leikmenn sem eru sterkir í loftinu. Grétar Steinsson er hættulegur þegar hann sækir fram og Kári Árnason góður í föstum leikatriðum. Ragnar Sigurðsson er góður varnarmaður - ég veit reyndar ekki hvort hann sé skyldur Gylfa,“ sagði hann í léttum dúr.

Hitzfeld var einnig spurður um sitt eigið lið og sagði að það væri á réttri leið. „Við höfum bætt okkur í hverjum leik. Vissulega fengum við á okkur mark gegn Noregi sem hefði verið betra að sleppa en almennt séð hafa úrslitin verið jákvæð. 1-1 jafntefli gegn Noregi eru líka góð úrslit.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×