Fótbolti

Cercle vill hálfa milljón evra fyrir Eið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Samkvæmt belgískum fjölmiðlum standa viðræður enn á milli belgísku grannliðanna Cercle Brugge og Club Brugge um kaup síðarnefnda félagsins á Eiði Smára Guðjohnsen.

De Standaard greinir frá því að forráðamenn Cercle vonast eftir því að fá hálfa milljón evra - um 85 milljónir króna. Club mun hafa boðið 50 milljónir króna í síðustu viku en því var hafnað umsvifalaust.

Eiður Smári getur þó farið frítt frá félaginu í lok mánaðarins en þá aðeins til félaga utan Belgíu. Nú þegar hefur hann verið orðaður við Torino á Ítalíu og Perth Glory í Ástralíu.

Forráðamenn Cercle Brugge greindu frá því í vikunni að félagið væri reiðubúið að ræða við þau félög sem hafa áhuga á að fá Eið Smára í sínar raðir. Þar fer Club Brugge fremst í flokki en Arnar Grétarsson er yfirmaður knattspyrnumála þar.

Óvíst er hvað tekur við hjá Eiði Smára. Belgíska deildin er í vetrarfríi sem stendur en liðið á næst leik í bikarnum þann 16. janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×