Erlent

Engar forsendur fyrir lýðræðislegum kosningum

Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið hafa hætt við kosningaeftirlit í Bangladesh, þar sem embættismenn þeirra segja grunninn fyrir lýðræðislegar kosningar í landinu hruninn. Stórfylking stjórnmálaflokka hafði hótað að sniðganga kosningarnar og sakaði ráðandi aðila um að ætla að hagræða úrslitunum. Kosningarnar áttu að fara fram þann 22. janúar næstkomandi.

Kosningaeftirlitsmenn Evrópusambandsins munu yfirgefa Bangladesh fyrir sunnudagskvöld. Almenningur í landinu hefur mótmælt spillingu í landinu á götum úti vikum saman. Talsvert ofbeldi hefur verið í landinu og átök milli mótmælenda og lögreglu sem hafa farið versnandi eftir því sem nær dregur áætluðum kjördegi.

Brotthvarf Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins er tekið alvarlega í Dhaka, höfuðborg Bangladesh, og þykir skýr skilaboð frá alþjóðasamfélaginu um að fresta eigi kosningunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×