Innlent

Mikil fækkun brota eftir að kórónuveiran greindist hér á landi

Eiður Þór Árnason skrifar
Tölurnar benda til þess að færri mál hafi komið inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í marsmánuði en alla jafna.
Tölurnar benda til þess að færri mál hafi komið inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í marsmánuði en alla jafna. Vísir/vilhelm

Mikil fækkun var í fjölda skráðra hegningarlagabrota hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í mars, ef horft er til meðalfjölda brota síðasta hálfa og heila árið.

Alls voru 514 hegningarlagabrot skráð á höfuðborgarsvæðinu í mars og fækkaði þeim á milli mánaða. Þar af fækkaði tilkynningum meðal annars um þjófnaði, innbrot og ofbeldisbrot. Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgaði þó á milli mánaða. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir marsmánuð.

Ef fjöldi brota í mars er borinn saman við meðalfjölda síðasta hálfa og heila árið sést mikil fækkun í tilkynningum um þjófnaði, minniháttar eignaspjöll, umferðalagabrot, ölvun við akstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Að sama skapi sést fækkun í tilkynningum um innbrot, manndráp og líkamsmeiðingar, kynferðisbrot og fíkniefnalagabrot samanborið við meðalfjölda brota síðustu mánuði.

Þess ber að geta að um er að ræða bráðabirgðatölur og getur fjöldi skráðra brota í mars breyst  vegna brota sem kærð eru seint til lögreglu.

Tafla úr mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir marsmánuð.Lögreglan

Engar skýringar eru lagðar fram í skýrslunni á þessari þróun. Þó má leiða líkur að því að faraldur kórónuveirunnar, með tilkomu samkomubanns, samdrætti í samgöngum og aukinni félagslegri fjarlægð hafi mögulega haft hér áhrif. Fyrsta staðfesta tilfelli veirunnar greindist hér á landi þann 28. febrúar síðastliðinn.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×