Erlent

Barnavændi mun aukast á HM í Brasilíu

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Börn og unglingar eru seld starfsmönnum sem vinna við að byggja upp íþróttaleikvanginn í Brasilíu þar sem heimsmeistaramótið í knattspyrnu verður haldið næsta sumar.

Sunday Mirror hefur rannsakað þessi mál og fékk til viðtals við sig 14 ára stúlku sem er seld til 10 til 15 manna á hverjum degi. Stúlkan segist vera með þeim eldri sem seld er í vændi á þessum stað og þarna séu börn allt niður í 11 ára gömul seld.

Mennirnir sem nýta sér stúlkuna borga um 600 íslenskar krónur fyrir skiptið. Búist er við því að fleiri börn verði flutt til Sao Paulo þar sem mótið fer fram þegar ferðamenn hópast til borgarinnar næsta sumar.

Börnin eru tekin frá fátækari svæðum landsins. Einnig eru börn frá fátækum svæðum í öðrum heimsálfum til dæmis Afríku flutt inn til landsins á vegum rússnesku mafíunnar.

Dómari í borginni segir að erfitt sé að gera nokkuð í þessum mikla vanda þar sem engin vilji virðist vera fyrir því hjá yfirvöldum að stoppa barnavændi.

Börnin, sem eru að meiri hluta stúlkur, hitta mennina sem kaupa þau á sérstökum hótelum á vinnustaðnum eða í þeirra eigin herbergjum. Stúlkan sem Mirror ræddi við segir að þrátt fyrir að börn undir aldri megi ekki koma ein á hótel fái hún engu að síður inngöngu. Eigendurnir vita hver hún er og til hvers hún er komin.

Stúlkan komst nýlega að því að hún er barnshafandi. Hún segist hafa byrjað í vændinu eftir að móðir hennar lést en margir sem hún þekkti seldu sig. Þegar móðir hennar lést vissi hún ekki hvernig hún ætti að kaupa sér mat eða borga leigu og hún hafi farið út á göturnar og komist að því að nóg var af mönnum sem vildu greiða henni fyrir kynlíf.

Hún telur að þegar ferðamennirnir komi til landsins muni börnunum fjölga enda sjái mörg þeirra tækifæri í því að eignast pening með þessari leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×