Fótbolti

Segja að um­spils­leikurinn gegn Rúmenum fari fram í septem­ber

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi fær ekki að spila með landsliðinu fyrr en í september.
Gylfi fær ekki að spila með landsliðinu fyrr en í september. vísir/getty

Erlendir miðlar greina nú frá því að UEFA á að hafa tilkynnt að umspilsleikirnir fyrir EM 2020 sem áttu að fara fram í júní hafa verið frestað fram í september vegna kórónuveirunnar.

Leikirnir áttu upphaflega að fara fram í mars en var frestað vegna veirunnar. Ísland átti að leika við Rúmeníu á Laugardalsvelli þann 26. mars en leiknum var frestað þangað til í júní.

Ný dagsetning var 6. júní en nú er líklegt að leikirnir munu ekki fara fram fyrr en í september. Það ku vera til þess að gefa deildunum rými til þess að klára deildirnar sínar heima fyrir.

Ekki er komin dagsetning á leikina í september en Ísland á að mæta Rúmeníu eins og áður segir. Sigurvegarinn úr þeirri viðureign mætir annað hvort Búlgaríu eða Ungverjalandi í úrslitaleiknum um sæti á EM 2020, sem fer hins vegar fram 2021.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×