Innlent

Smit greindist í smitrakningar­teyminu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ævar Pálmi Pálmason lögreglufulltrúi fer fyrir smitrakningateyminu. Hann kynnti störf þess á upplýsingafundi almannavarna á dögunum.
Ævar Pálmi Pálmason lögreglufulltrúi fer fyrir smitrakningateyminu. Hann kynnti störf þess á upplýsingafundi almannavarna á dögunum. Lögreglan

Einn starfsmaður smitrakningarteymis sóttvarnalæknis og ríkislögreglustjóra hefur verið greindur með Covid-19 smit. Af þeim sökum er um helmingur teymisins í vinnusóttkví á hóteli á meðan hinn hlutinn sinnir stari sínu í húsakynnum almannavarna í Skógarhlíð.

Ævar Pálmi Pálmason lögreglufulltrúi, sem fer fyrir teyminu sem skipað er rannsóknarlögreglumönnum, segir í samtali við Ríkisútvarpið að starfsmaðurinn sem greindist hafi verið einkennalaus og sé enn. Allir í teyminu hafi farið í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu en markmiðið með því hafi verið að vernda þessa viðkvæmu en nauðsynlegu starfsemi.

Tæknimenn lögreglunnar hafi tekið til hendinni og komið upp nýrri vinnuaðstöðu fyrir tólf til fimmtán manns á hótelinu. Smitrakningarteymið hefur það hlutverk að rekja smit af völdum veirunnar, komast í samband við fólk sem var í samskiptum við smitaða og beina því í sóttkví.

GPS-app hefur verið kynnt til leiks sem á að auðvelda þá vinnu. Reiknað er með því að appið verði komið í App- og Playstore síðar í dag eða á morgun. Það ber heitið Rakning C-19.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×