Innlent

Bjóða 85 ára og eldri sem búa einir að fá símavin í ljósi ástandsins

Eiður Þór Árnason skrifar
Verkefninu var komið á fót í Reykjavík vegna faraldurs kórónuveiru.
Verkefninu var komið á fót í Reykjavík vegna faraldurs kórónuveiru. Vísir/vilhelm

Hringt verður í allt fólk á aldrinum 85 ára og eldri sem býr einsamalt í Reykjavík og hefur notið þjónustu borgarinnar. Í símtalinu verður líðan þeirra og aðstæður kannaðar ásamt því að fólki verður boðið að eignast símaspjallvin.

Verkefnið hefur fengið heitið Spjöllum saman og er ætlað að draga úr félagslegri einangrun eldri borgara nú þegar minna er um nánd og samskipti vegna faraldurs kórónuveiru.

Um er að ræða nýtt samstarfsverkefni velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Landssambands eldri borgara og Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.

Fram kemur á vef Reykjavíkurborgar að starfsfólk félagsmiðstöðva fullorðinna í Reykjavík muni hringja fyrsta símtalið til þeirra sem falla í umræddan hóp.

„Með símtalinu á að veita félagslegan stuðning í formi spjalls á forsendum hvers og eins. Starfsmenn segja frá verkefninu og frá sjálfboðaliðum í hverfinu sem langi til þess að sýna náungakærleika á meðan þetta ástand vari.“

Í kjölfarið verði fólki boðið að fá símtal frá sjálfboðaliða á næstu dögum. Sjálfboðaliðar munu koma frá Landssambandi eldri borgara og Félagi eldri borgara í Reykjavík en auk þeirra er leitað að fleiri sjálfboðaliðum.

Símaspjallið er viðbót við aðra þjónustu Reykjavíkurborgar á borð við heimaþjónustu og heimahjúkrun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×