Fótbolti

Myndi ekki nota Özil og segir að tími hans hjá Arsenal sé liðinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mesut Özil biður fyrir leik Arsenal og Manchester City.
Mesut Özil biður fyrir leik Arsenal og Manchester City. Getty/Stuart MacFarlane

Andrey Arshavin verður væntanlega lengi vel þekktur í herbúðum Arsenal eftir að hafa skorað fjögur mörk í 4-4 jafntefli gegn Liverpool árið 2009. í nýju viðtali segir hann að Arsenal-liðið sé ekki nægilega gott varnarlega og að Mesut Özil sé of hægur.

Arshavin var í viðtali við 888 Sport þar sem hann fór yfir stöðuna bæði hjá Arsenal og Özil. Þjóðverjinn var talinn á útleið er Unai Emery stýrði liðinu en eftir að Mikel Arteta tók við stjórnartaumunum hefur hann fengið líflínu.

„Sem leikmaður ber ég auðvitað mikla virðingu fyrir honum. Hann er heimsklassaleikmaður en hann hægir of mikið á leiknum. Ég myndi frekar nota einhvern annan leikmenn. Mikel sér öðruvísi á hlutina og notar hann mikið. Hann hefur bætt sig hjá Arsenal en ég sé hann ekki þarna í framtíðinni,“ sagði Rússinn.

Arsenal situr í 9. sæti deildarinnar og hefur verið í vandræðum á leiktíðinni. Hinn rússneski Arshavin segir morgunljóst hvað vandamálið sé hjá félaginu. Það sé það sama og var þegar hann var á mála hjá Lundúnarliðinu.

„Það er ekkert jafnvægi í liðinu. Sóknarlega eru þeir mjög góðir og spila sóknarlega mjög flottan fótbolta og það er gaman að horfa á þá en varnarlega eru þeir mjög veikir og einnig þegar ég var þarna.“

„Stundum er það vegna meiðsla og stundum vantar reynsluna en ég veit ekki afhverju þetta breytist ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×