Erlent

Bandaríkjamenn tilbúnir að aflétta þvingunum ef Maduro stígur til hliðar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bandaríkin viðurkenna ekki tilkall Nicoláss Maduro til valda í Venesúela.
Bandaríkin viðurkenna ekki tilkall Nicoláss Maduro til valda í Venesúela. Vísir/Getty

Bandarísk stjórnvöld hafa boðist til þess að aflétta viðskiptaþvingunum sínum gagnvart Venesúela, gegn því að síðarnefnda ríkið samþykki valdaskiptasamning sem felur í sér að núverandi forseti ríkisins, Nicolás Maduro, stigi til hliðar.

Í samningnum sem Bandaríkin hafa lagt til felst sá ráðahagur að sérstakt ráð myndi taka við völdum af Maduro þar til unnt yrði að kjósa í landinu. Bandaríkin hertu á viðskiptaþvingunum sínum gagnvart Venesúela á síðasta ári, með það fyrir augum að fá Maduro til að afsala sér völdum. Það hefur þó ekki tekist, en Maduro tók við völdum í landinu árið 2013.

Maduro nýtur stuðnings venesúelska hersins, auk þess sem stjórnvöld í Rússlandi, Kína og Kúbu hafa öll lýst yfir stuðningi við forsetann.

Tilboð Bandaríkjanna, sem lagt var fram af Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, rímar um margt við það sem kom fram í tilkynningu frá Juan Guaidó, sem er meginstjórnarandstöðuleiðtogi Venesúela, gaf frá sér um helgina. Hann er viðurkenndur af Bandaríkjunum og 60 öðrum ríkjum sem bráðabirgðaforseti Venesúela.

Efnahagsástand í Venesúela hefur um árabil verið afar slæmt. Á síðasta ári náði verðbólgan í ríkinu 800 þúsund prósentum. Þá hafa tæpar 4,8 milljónir flúið landið vegna efnahagsástandsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.