Erlent

Stórar samkomur bannaðar út ágúst

Kristín Ólafsdóttir og Andri Eysteinsson skrifa
Frá Kaupmannahöfn
Frá Kaupmannahöfn

Dönsk heilbrigðisyfirvöld hafa nú skilgreint „stórar samkomur" í landinu sem samkomur 500 manns eða fleiri. Ekki mega því fleiri en 500 koma saman í landinu til 1. september hið minnsta. Áður hafði verið gefið út að "stórar samkomur" yrðu bannaðar í Danmörku næstu mánuði vegna faraldurs kórónuveiru en fjöldatakmarkanir höfðu ekki verið staðfestar - fyrr en nú.

Núverandi samkomubann í Danmörku nær til tíu manns eða fleiri og það verður í gildi til 10. maí hið minnsta. Ekki er þó loku fyrir það skotið að þær fjöldatakmarkanir verði framlengdar, að því er fram kemur í frétt danska ríkisútvarpsins. Þá er tekið fram í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins að útgefnar tölur verði sífellt endurskoðaðar eftir því hvernig faraldurinn þróast í landinu.

Svipað hefur verið uppi á teningnum á Íslandi. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lagt til í minnisblaði til ráðherra að fjöldatakmarkanir út ágúst muni miðast við tvö þúsund manns. Fram kom í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna í síðustu viku að ekkert hefði enn verið ákveðið í þeim efnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×