Erlent

Vonir um hjarðó­næmi ó­raun­sæjar: Að­eins um 2 prósent allra hafa myndað mót­efni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tedros Adhanom Ghebreyesus á blaðamannafundi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Genf.
Tedros Adhanom Ghebreyesus á blaðamannafundi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Genf. EPA/SALVATORE DI NOLFI

Aðeins agnarsmár hluti allra í heiminum, eða um 2 til 3 prósent, virðist hafa myndað mótefni við Covid-19 samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Vonir um að hjarðónæmi myndist fyrir veirunni virðast því ekki raunsæjar eins og staðan er í dag.

„Að létta á höftum markar ekki enda faraldursins í neinu landi,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO, á blaðamannafundi í Genf í dag. „Svokölluð útgöngubönn gætu þó hjálpað til við að vinna á faraldrinum.“

Raðgreiningar hafa gefið til kynna að aðeins lítill hluti allra hafi smitast og myndað mótefni við veirunni. „Gögnin sem við búum yfir núna gefa til kynna að aðeins lítill hluti allra hafi smitast,“ sagði Tedros. „Ekki meira en 2%-3%.“

Maria Van Kerkhove, bandarískur smitsjúkdómasérfræðingur sem leiðir Covid-19 teymi WHO, sagði að talið hefði verið að fleiri hefðu smitast af sjúkdómnum en hún ítrekaði þó að enn væri of snemmt til að vita það með vissu. „Núna sjáum við lægra hlutfall fólks með mótefni en við bjuggumst við,“ sagði hún.

Á föstudag var birt forprent úr niðurstöðum rannsóknar sem gerð var hjá Stanford háskóla í Santa Clara í Kaliforníu en þar kemur fram að 50-85 sinnum fleiri hafi smitast af veirunni en opinberar tölur sýna. Í Santa Clara héraði höfðu aðeins 1.094 tilfelli af veirunni verið staðfest þegar rannsóknin var gerð en skimun fyrir mótefninu gefur til kynna að á milli 48-81 þúsund manns hafi smitast af veirunni í byrjun apríl og lang flestir þeirra höfðu ekki sýnt nein einkenni.

Þrátt fyrir þessar háu tölur hafa aðeins 3 prósent allra í héraðinu smitast og myndað mótefni við veirunni. Þá sýndi rannsókn sem framkvæmd var í Hollandi að af sjö þúsund einstaklingum sem tóku þátt í rannsókninni voru aðeins 3 prósent með mótefni við veirunni.

Van Kerkhove sagði að skoða þyrfti nákvæmlega rannsóknirnar sem hafa verið framkvæmdar. „Nokkrar rannsóknir sem við höfum í sigtinu hafa verið birtar í forprenti en allar gefa þær til kynna að lítill hluti almennings [hafi myndað mótefni],“ sagði hún. Allar rannsóknirnar benda til lítils almenningssmits en mest er það þó í Frakklandi og Þýskalandi þar sem 14 prósent þátttakenda í rannsóknum hafa myndað mótefni. „Það er mjög mikilvægt að við skoðum hvernig rannsóknirnar voru framkvæmdar.“

Þar á meðal segir hún að skoða þurfi hvaða hópur fólks hafi tekið þátt í rannsóknunum. Hvort það hafi verið tilviljunarúrtak eða fólk sem hafði gefið blóð, sem eru alla jafna heilbrigðir fullorðnir einstaklingar. Þá þurfi einnig að skoða hvernig rannsóknirnar hafi verið framkvæmdar.

„Við erum að vinna að þessu í samstarfi við nokkur lönd sem hafa framkvæmt svona rannsóknir,“ bætti hún við.


Tengdar fréttir

Telur fórnarkostnað hjarðónæmis of háan

„Við vitum hvað hjarðónæmi þýðir, við vitum hvað þarf að vera mikið ónæmi í samfélaginu til að stoppa þessa veiru af og ég held að það yrði gríðarlegur fórnarkostnaður ef við ætluðum að ná því tiltölulega hratt og það myndi ekki bara vera fórnarkostnaður hvað varðar þessa sýkingu. Það myndi vera fórnarkostnaður á aðra sjúklingahópa, heilbrigðiskerfið, allt saman.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×