Fótbolti

Á­fram í Bæjara­landi eftir að hafa skrifað undir nýjan samning með grímu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Alphonso Davies á æfingu Bayern á dögunum en þeir hafa æft stíft þrátt fyrir kórónuveiruna.
Alphonso Davies á æfingu Bayern á dögunum en þeir hafa æft stíft þrátt fyrir kórónuveiruna. vísir/getty

Alphonso Davies verður áfram hjá Bayern Munchen en hann skrifaði í dag undir nýjan samning við félagið sem gildir til ársins 2025.  Samningur hans við félagið átti að renna út sumarið 2023.

Davies hefur vakið mikla lukku frá því að hann kom til félagsins frá Vancouver Whitecaps haustið 2018 en í viðtali við heimasíðu félagsins sagði stjórnarformaðurinn Karl-Heinz Rummenigge að mikil ánægja væri með Kanadamanninn bæði innan sem utan vallar.

Íþróttastjórinn og fyrrum leikmaður Bæjara Hasan Salihamidzic segir að hraði Alphonso hjálpi honum mikið og að hans íþróttaeiginleikar komi að góðum notum. Salihamidzic hrósaði Alphonso fyrir framkomu sína hjá félaginu.

Davies er fæddur árið 2000 en hann hafði spilað 21 leik í þýsku úrvalsdeildinni er hún var sett á ís vegna kórónuveirunnar. Það var viðeigandi að við undirskriftina í dag höfðu allir hluteigandi aðilar uppi grímur. Reiknað er með að Bundesligan byrji aftur 9. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×