Innlent

Rok og rigning en gæti skriðið í rúm­lega 10 stig fyrir austan

Atli Ísleifsson skrifar
Blautt er það, spákortið fyrir hádegið í dag, eins og það leit út klukkan sjö í morgun.
Blautt er það, spákortið fyrir hádegið í dag, eins og það leit út klukkan sjö í morgun. Veðurstofan

Útlit er fyrir suðvestan strekking eða allhvassan vind í dag, 10 til 18 metrar á sekúndu, með rigningu sem einkum verður bundin við vesturhelming landsins.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það verði milt í veðri og hiti yfirleitt á bilinu þrjú til átta stig. Þó gæti skriðið í rétt rúmlega tíu stig á Austfjörðum og Suðausturlandi. Í kvöld dregur svo úr úrkomu og kólnar.

„Á morgun verður stífur vindur úr vestri, sums staðar hvassviðri. Með fylgja él, en austanlands hangir þurrt. Það heldur áfram að kólna og frost allt að 5 stig síðdegis. Undir kvöld snýst vindur til norðlægrar áttar og snjókomubakki kemur inn á norðanvert landið, en þá má búast við stöku éljum syðra.

Út vikuna er síðan ekkert nema kuldi í kortunum - frost á öllu landinu. Í ofanálag verður vindur stundum hvass og áður en vikan er á enda eru líkur á að það hafi snjóað í öllum landshlutum.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Vestan 13-20 m/s og él, en úrkomulítið austanlands. Kólnandi, frost 0 til 5 stig síðdegis. Norðlægari um kvöldið og snjókoma á norðurhelmingi landsins.

Á fimmtudag: Minnkandi norðanátt. Léttskýjað sunnan- og vestanlands, en él um landið norðaustanvert. Frost 2 til 8 stig.

Á föstudag: Norðlæg átt og kalt í veðri. Él N- og A-lands og snjókoma við S-ströndina síðdegis.

Á laugardag: Austan og norðaustan hvassviðri eða stormur. Víða snjókoma og áfram kalt í veðri.

Á sunnudag: Norðaustanátt og snjókoma eða él norðan- og austanlands. Úrkomulaust að mestu á Suður- og Vesturlandi, en dálítil snjókoma með suðurströndinni. Frost um allt land.

Á mánudag: Austlæg átt og líkur á snjókomu eða éljum í flestum landshlutum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×