Erlent

For­seta­fram­bjóðandi hvetur kjós­endur til að snið­ganga kosningar

Sylvía Hall skrifar
Malgorzata Kidawa-Blonska.
Malgorzata Kidawa-Blonska. Vísir/Getty

Malgorzata Kidawa-Blonska, forsetaframbjóðandi Borgaravettvangsins (e. Civic Platform) í Póllandi, hefur dregið framboð sitt til baka og hvetjur kjósendur til þess að sniðganga kosningarnar þar í landi vegna kórónuveirufaraldursins. Hvatti hún jafnframt aðra frambjóðendur til þess að gera slíkt hið sama.

Kosningarnar eiga að fara fram þann 10. maí næstkomandi.

Pólski stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti (PiS) hyggst standa við fyrirhugaða dagsetningu og kynnti í gær breytingar á reglum um póstatkvæði. Stjórnarandstaðan gagnrýndi þeir breytingar mjög og sagði þær gera það að verkum að kosningarnar stæðust varla stjórnarskrá.

Kidawa-Blonska hvatti Pólverja til þess að halda sig heima í stað þess að fara á kjörstað. Líf þeirra væri mikilvægast að svo stöddu en alls hafa 1.862 tilfelli af kórónuveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum verið staðfest í landinu. 20 hafa látist.

Á vef Reuters kemur fram að frekari óvissa sé nú uppi um hvort kosningarnar fari fram yfir höfuð. Andrzej Duda, sitjandi forseti, hefur haft ágætis forskot í skoðanakönnunum og hefur stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti ýtt á eftir því að kosningarnar fari fram á áætluðum tíma til þess að tryggja sigur Duda.

Þó svo að forsætisráðherraembætti Póllands sé valdamesta embættið í landinu er forsetinn æðsti yfirmaður hersins, mikilvæg rödd í utanríkismálum landsins og getur beitt neitunarvaldi gegn lögum sem þingið hefur samþykkt. Duda hefur verið hliðhollur stjórnarflokknum og því telja flokksmenn mikilvægt að hann haldi embætti.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.