Fótbolti

„Hneykslaður ef Ighalo fer frá United“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ighalo fagnar marki gegn LASK í Evrópudeildinni skömmu áður en allur fótbolti var settur á ís.
Ighalo fagnar marki gegn LASK í Evrópudeildinni skömmu áður en allur fótbolti var settur á ís. vísir/getty

Paul Merson, sparkspekingur Sky Sports og fyrrum leikmaður í enska boltanum, segir að Odion Ighalo hafi verið frábær síðan hann gekk í raðir Manchester United í janúarglugganum á láni Shanghai Shenhua.

Ighalo hefur komið vel inn í lið United frá því að hann kom á láni frá Kína en hann hafði áður spilað á Englandi með Watford. Þar hafði hann átt misjafna tíma og Merson vildi þar af leiðandi ekki blanda sér í umræðuna er Ighalo kom tli félagsins.

„Þegar Ighalo kom til Man. United í janúar þá vildi ég ekki taka þátt í umræðunni því það var áhætta að maður kæmi kjánalega út úr umræðunni. Ef þú hefðir sagt að hann myndi vera skelfilegur gæti hann niðurlægt þig með sömu frammistöðunni og eitt árið hjá Watford,“ sagði Merson og hélt áfram:

„En ef þú hefðir sagt að þetta væru góð kaup, þá hefði hann mögulega einnig getað verið leikmaðurinn sem var stundum skelfilegur rétt áður en hann fór frá Watford. Ég vildi ekki taka þátt í umræðunni því maður myndi aldrei koma út sem sigurvegari út úr henni.“

United íhugar að kaupa nígeríska framherjann í sumar en hann er á láni fram að sumri. Lið hans í Kína, Shanghai, hefur boðið honum gull og græna skóga með framlengingu á samningi hans í Kína.

„Það sem ég get sagt núna er að hann hefur verið magnaður síðan hann kom á Old Trafford. Ég veit að hann hefur ekki spilað mikið en þegar hann hefur komið af bekknum og þegar hann hefur fengið að spila þá lítur hann vel út.“

„Þetta er erfitt fyrir United að ákveða með framtíðina og getur hann gert það sama á næstu leiktíð? Hann hefur rætt mikið um það síðan hann kom til félagsins að þetta væri draumur hans og ég sé hann ekki neita tilboði félagsins. Ef United býður honum samning, yrði ég hneykslaður ef hann myndi fara,“ sagði Merson.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.