Innlent

Fjöldi tilkynninga mikil vonbrigði

Andri Eysteinsson skrifar
Víðir Reynisson hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Vísir/Vilhelm

„Ég sé ekki af hverju við ættum að fara í hertari aðgerðir ef það þarf ekki,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar í dag. Víðir sagði að ljóst væri að þörf væri á að gengið yrði harðar eftir því að tilmælum væri fylgt.

„Þær skipta hundruðum tilkynningarnar eftir nóttina, um það sem hefði mátt betur fara í samfélaginu síðasta sólarhring. Það kallar á að við endurskoðum hvernig við fylgjum þessu eftir sem eru mikil vonbrigði,“ sagði Víðir.

Samkomubann hefur verið í gildi hér á landi síðan 15. mars síðastliðinn og gert ráð fyrir að það standi hið minnsta til 13. apríl. Í fyrstu miðaðist bannið við 100 manns en hefur síðan verið hert og stendur nú í 20. Bæði Víðir og sóttvarnarlæknir, Þórólfur Guðnason, sögðu að ekki væri þörf á að beita hertari aðgerðum, svo sem útgöngubanni, að svo stöddu.

„Hver breyting á hertum aðgerðum hefur mikil samfélagsleg áhrif og mikið samfélagslegt tjón og á meðan við teljum hertari aðgerðir ekki skila sérstökum árangri sem þróunin myndi kalla á er engin ástæða til að skemma samfélagið meira en við þurfum. Við erum að valda gríðarlegu tjóni í samfélaginu með þessum aðgerðum,“ sagði Víðir.

Þó verði ekki hikað við að taka þær ákvarðanir ef þess þarf seinna meir.

„Við höfum sagt það, að ef við lokum landinu eða lokum landshlutum er það eina sem gerist þá að við fáum faraldurinn seinna, við seinkum honum. Við getum ekki sloppið við hann. Ég tel að við séum að fylgja öllum ráðleggingum með því að gera ekki of mikið og ekki of lítið. Reyna að komast eins vel út úr þessu og mögulegt er og með sem minnstum skaða,“ sagði Þórólfur sóttvarnarlæknir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×