Innlent

Maður konunnar sem lést vegna kórónuveirunnar alvarlega veikur og í öndunarvél

Andri Eysteinsson skrifar
Frá bráðamóttökunni í Fossvogi
Frá bráðamóttökunni í Fossvogi Vísir/Vilhelm

Eiginmaður konu, sem lést síðastliðinn mánudag af völdum COVID-19 sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur, berst nú fyrir lífi sínu á gjörgæsludeild Landspítalans vegna veirunnar.

 Stundin greinir frá því að ættingjar hjónanna hvetji Íslendinga til þess að taka faraldrinum alvarlega og ekki sé annað í boði en að fylgja fyrirmælum yfirvalda.

Konan sem var 71 árs gömul þegar hún lést á mánudag var astmasjúklingur en eiginmaður hennar, sem nú berst fyrir lífi sínu, er fjórum árum eldri og glímdi ekki við önnur veikindi. Stundin segir frá því að heilsu mannsins hafi hrakað mjög frá því á mánudag og hafi hann í dag verið færður í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítala.

Í samtali við Vísi segir sonur hjónanna að  faðir sinn hafi verið heilushraustur en hann hafi veikst stuttu eftir að eiginkona hans var flutt til Reykjavíkur. Eftir að hafa staðið veikindin nokkuð vel af sér í nokkurn tíma sé honum nú haldið sofandi í öndunarvél.

Ljóst er að um er að ræða með eindæmum erfiða tíma hjá fjölskyldunni. „Það veit enginn hvernig framhaldið verður, við eigum eftir að komast yfir eitt dauðsfall og vinna úr því. Við vitum ekki einu sinni hvernig við eigum að gera það því það er nákvæmlega ekkert eðlilegt í kringum það,“ sagði sonurinn.

Þrjú dvelja nú á gjörgæsludeild, ein kona og tveir karlmenn. Alls hafa 802 greinst með kórónuveiruna hér á landi og fjölgaði smitum um 65 síðasta sólarhring.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.