Fótbolti

N­evil­le hlustaði ekki á ráð­leggingar Fergu­son og skömmu síðar var hann rekinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gary Neville er hann stýrði Valencia en það var skammgóður vermir.
Gary Neville er hann stýrði Valencia en það var skammgóður vermir. vísir/getty

Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United og stjóri Valencia á Spáni, segir að hann hafi hunsað ráðleggingar frá læriföður sínum Sir Alex Ferguson er hann stýrði Valencia.

Neville tók við stjórnartaumunum hjá Valencia í desember árið 2015 en var rekinn fjórum mánuðum síðar. Hann vann einungis þrjá deildarleiki og fékk 7-0 skell gegn Barcelona í bikarnum.

Neville vissi að nokkrir leikmenn liðsins vildu komast burt frá félaginu í janúar og hann segir að það hafi verið mistök að hlusta ekki á Ferguson og losa sig við þessa leikmenn.

„Það var klárt að nokkrir leikmenn voru ósáttir. Ég hefði átt að taka stóra ákvörðun um þessa leikmenn sem voru ekki tilbúnir að skuldbinda sig gagnvart félaginu,“ sagði Neville í samtali við Off Script hlaðvarpið.

„Ég man eftir að ég talaði við Sir Alex Ferguson snemma í ferlinu og hann sagði mér að ég ætti að losa mig við þessa leikmenn og þannig vernda sjálfan mig. Hann sagði að ég ætti bara að hafa leikmenn í búningsklefanum sem væru að stefna í sömu átt og ég.“

„Ég hlustaði ekki á hann. Ég talaði við nokkra af leikmönnunum og bað þá um að vera þangað til að tímabilinu lyki en þeir voru ekki ánægðir. Ég hunsaði ráðleggingar Ferguson og það er ekki mitt besta augnablik,“ sagði Neville.

Neville starfar nú sem sparkspekingur hjá Sky Sports og rekur hótel í Manchester.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×