Fótbolti

Íslenska VARsjáin gat borið sig saman við tæknina sem er notuð í enska boltanum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson er einn starfsmanna OZ. Hann er einnig einn besti dómari Pepsi Max-deildarinnar.
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson er einn starfsmanna OZ. Hann er einnig einn besti dómari Pepsi Max-deildarinnar. vísir/bára

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, milliríkjadómari, hefur undanfarnar vikur og mánuði unnið að nýju VAR-kerfi sem gæti nýst á Íslandi. Hann vinnur hjá íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu OZ þar sem unnið er hörðum höndum að kerfi sem gæti nýst sem hin svokallaða VARsjá, myndbandaðstoðardómarar.

Vilhjálmur Alvar segir að kerfið sem OZ hefur hannað hafi komist í gegnum ákveðið próf fyrr í mánuðinum en OZ hefur unnið að kerfinu undanfarna mánuði. Þar voru það tvö fyrirtæki sem komust í gegnum prófið og hitt fyrirtækið var ekkert smá fyrirtæki.

„Á þessum viðburði hjá hollenska knattspyrnusambandinu sem við vorum á í mars voru tvö fyrirtæki. Það voru við og Hawk-Eye en þeir sjá um enska, spænska, ítalska boltann, UEFA og þessar stærstu. Við gátum borið okkur saman við toppinn og eigum eftir að fá niðurstöðurnar en við komumst í gegnum þetta nálarauga,“ sagði Vilhjálmur Alvar sem var gestur í Sportinu í dag.

Næsta spurning beindist svo að því hvenær við myndum sjá VAR-ið í Pepsi Max-deildunum hér heima.

„Vonandi sem fyrst. Það er alltaf ákvörðun sem knattspyrnusamböndin þurfa að taka því að maður tekur ekki bara ákvörðun og segja nú ætlum við að taka VAR. Það þarf að þjálfa dómara og þessi þjálfun tekur langan tíma. Þú þarft að þjálfa þá í að vinna með myndbandsbúnaðinn og þjálfa dómarana á vellinum að hafa VAR í eyranu og annað.“

„Slíkt þjálfunarferli tekur hjá sumum allt upp í ár. Danirnir eru að eyða átta mánuðum í þetta og svo framvegis. Það væri frábært fyrir okkur að fá þetta inn á Íslandi og ekki bara fyrir okkur heldur fyrir íslenska knattspyrnu. Til þess að tryggja það að stórar ákvarðanir fara ekki úrskeiðis. Maður sem vill dómari vill dæma allt rétt en það getur gerst að eitthvað stórt gerist. Við höfum dæmi úr íslenskri knattspyrnu þar sem hefði verið gott að hafa myndbandsdómgæslu.“

Farið var yfir nokkur atvik í stærstu deildunum og þeir Henry Birgir Gunnarsson og Kjartan Atli Kjartansson létu Vilhjálm útskýra hina ýmsu dóma.

Klippa: Vilhjálmur Alvar um OZ

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.