Innlent

Reykjanesbraut og Biskupsbeygja meðal þess sem flýta á í vegagerð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Reykjanesbraut við Straumsvík.
Frá Reykjanesbraut við Straumsvík. Vísir/Vilhelm Gunnarsson.

Breikkun Reykjanesbrautar á ólokna kaflanum framhjá Straumsvík milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns er meðal þeirra verkefna í vegagerð sem fá flýtifé, samkvæmt stjórnartillögu um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak, sem fjármála- og efnahagsráðherra mælti fyrir á Alþingi í dag.

Reykjanesbrautin er inni í kafla um vegaframkvæmdir og hönnun, sem fær alls 1.860 milljónir króna, til viðbótar við gildandi áætlun, af 6.210 milljónum króna, sem verja á aukalega til samgönguframkvæmda.

Sjá einnig: Breikkun Reykjanesbrautar lokið á næstu fimm árum

Frá Suðurlandsvegi við Gunnarshólma neðan Lögbergsbrekku.Vísir/Vilhelm Gunnarsson.

Fimm önnur verkefni á Reykjavíkursvæðinu eru í þessum flokki; breikkun Suður­lands­veg­ar við Hádegismóa milli Bæjar­háls og Vest­ur­lands­veg­ar, breikkun Suður­lands­veg­ar meðfram Rauðhólum og Gunnarshólma, milli Fossvalla og Norðlinga­vaðs, og breikkun Vest­ur­lands­veg­ar í Mosfellsbæ, milli Langatanga og Hafra­vatns­veg­ar. Ennfremur hönn­un og und­ir­bún­ing­ur vegna út­færslu Breiðholts­braut­ar frá Jaðarseli að Suður­lands­vegi og hönn­un og und­ir­bún­ing­ur vegna breikk­un­ar Reykja­nes­braut­ar frá Fjarðar­hrauni að Mjódd.

Þrjú verkefni utan suðvesturhornsins eru nefnd í þessum flokki; Snæ­fells­nes­veg­ur um Skóg­ar­strönd, hring­veg­urinn efst á Holtavörðuheiði um Heiðarsporð, en þar er Bisk­ups­beygja, og loks endurbætur á þjóðveginum norðan Blönduóss í átt að Skagaströnd um Laxá og á Þverár­fjalls­veg­i um Refa­sveit.

Frá þjóðveginum um Holtavörðuheiði.Vísir/Vilhelm Gunnarsson.

Til breikkunar einbreiðra brúa á að verja 700 milljónum króna en þær eru: Köldu­kvísl­argil á Norðaustur­vegi, Gilsá á Völl­um á Skriðdals- og Breiðdals­vegi, Botnsá í Tálknafirði, Bjarna­dalsá í Önund­arf­irði, Núpsvötn, Stóra-Laxá á Skeiða- og Hruna­manna­vegi og Skjálf­andafljót á Hring­vegi hjá Foss­hóli við Goðafoss.

Til nýrra hringtorga, sem öll verða á Suðurlandi, á að verja 200 milljónum króna. Þau verða við Landvegamót, á Eyrarbakkavegi og á Flúðum.

Þá er óskipt framlag til tengivega upp á 1.000 milljónir króna. „Setja bundið slitlag á mal­ar­vegi um allt land. Fjár­veit­ing dreif­ist um allt land í hlut­falli við þá tengi­vegi sem eft­ir eru á hverju svæði með mal­ars­lit­lagi,“ segir í skýringum.

Þá er sömuleiðis óskipt viðbótarfé til viðhalds upp á 1.000 milljónir króna með svohljóðandi skýringu: „Ýmsar aðgerðir í viðhaldi á veg­um sem dreif­ist um land allt. Viðbót við fjár­veit­ing­ar skv. samgönguáætl­un.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.