Innlent

Reykjanesbraut og Biskupsbeygja meðal þess sem flýta á í vegagerð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Reykjanesbraut við Straumsvík.
Frá Reykjanesbraut við Straumsvík. Vísir/Vilhelm Gunnarsson.

Breikkun Reykjanesbrautar á ólokna kaflanum framhjá Straumsvík milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns er meðal þeirra verkefna í vegagerð sem fá flýtifé, samkvæmt stjórnartillögu um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak, sem fjármála- og efnahagsráðherra mælti fyrir á Alþingi í dag.

Reykjanesbrautin er inni í kafla um vegaframkvæmdir og hönnun, sem fær alls 1.860 milljónir króna, til viðbótar við gildandi áætlun, af 6.210 milljónum króna, sem verja á aukalega til samgönguframkvæmda.

Sjá einnig: Breikkun Reykjanesbrautar lokið á næstu fimm árum

Frá Suðurlandsvegi við Gunnarshólma neðan Lögbergsbrekku.Vísir/Vilhelm Gunnarsson.

Fimm önnur verkefni á Reykjavíkursvæðinu eru í þessum flokki; breikkun Suður­lands­veg­ar við Hádegismóa milli Bæjar­háls og Vest­ur­lands­veg­ar, breikkun Suður­lands­veg­ar meðfram Rauðhólum og Gunnarshólma, milli Fossvalla og Norðlinga­vaðs, og breikkun Vest­ur­lands­veg­ar í Mosfellsbæ, milli Langatanga og Hafra­vatns­veg­ar. Ennfremur hönn­un og und­ir­bún­ing­ur vegna út­færslu Breiðholts­braut­ar frá Jaðarseli að Suður­lands­vegi og hönn­un og und­ir­bún­ing­ur vegna breikk­un­ar Reykja­nes­braut­ar frá Fjarðar­hrauni að Mjódd.

Þrjú verkefni utan suðvesturhornsins eru nefnd í þessum flokki; Snæ­fells­nes­veg­ur um Skóg­ar­strönd, hring­veg­urinn efst á Holtavörðuheiði um Heiðarsporð, en þar er Bisk­ups­beygja, og loks endurbætur á þjóðveginum norðan Blönduóss í átt að Skagaströnd um Laxá og á Þverár­fjalls­veg­i um Refa­sveit.

Frá þjóðveginum um Holtavörðuheiði.Vísir/Vilhelm Gunnarsson.

Til breikkunar einbreiðra brúa á að verja 700 milljónum króna en þær eru: Köldu­kvísl­argil á Norðaustur­vegi, Gilsá á Völl­um á Skriðdals- og Breiðdals­vegi, Botnsá í Tálknafirði, Bjarna­dalsá í Önund­arf­irði, Núpsvötn, Stóra-Laxá á Skeiða- og Hruna­manna­vegi og Skjálf­andafljót á Hring­vegi hjá Foss­hóli við Goðafoss.

Til nýrra hringtorga, sem öll verða á Suðurlandi, á að verja 200 milljónum króna. Þau verða við Landvegamót, á Eyrarbakkavegi og á Flúðum.

Þá er óskipt framlag til tengivega upp á 1.000 milljónir króna. „Setja bundið slitlag á mal­ar­vegi um allt land. Fjár­veit­ing dreif­ist um allt land í hlut­falli við þá tengi­vegi sem eft­ir eru á hverju svæði með mal­ars­lit­lagi,“ segir í skýringum.

Þá er sömuleiðis óskipt viðbótarfé til viðhalds upp á 1.000 milljónir króna með svohljóðandi skýringu: „Ýmsar aðgerðir í viðhaldi á veg­um sem dreif­ist um land allt. Viðbót við fjár­veit­ing­ar skv. samgönguáætl­un.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×