Fótbolti

Sara á leið til besta félagsliðs Evrópu

Sindri Sverrisson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir hefur verið í lykilhlutverki hjá Wolfsburg.
Sara Björk Gunnarsdóttir hefur verið í lykilhlutverki hjá Wolfsburg. VÍSIR/GETTY

Sara Björk Gunnarsdóttir er á leið til sigursælasta knattspyrnuliðs Evrópu og sennilega besta knattspyrnuliðs heims í dag, franska félagsins Lyon.

Sara verður samningslaus í sumar eftir gjöful ár í Þýskalandi þar sem hún hefur orðið Þýskalandsmeistari og bikarmeistari þrjú ár í röð með Wolfsburg, og var á góðri leið með að ná því í fjórða sinn þegar hlé var gert vegna kórónuveirufaraldursins. Hún hefur verið í lykilhlutverki hjá liðinu öll þessi ár.

Franski miðillinn RMC Sport greinir frá því að Sara og Lola Gallardo, markvörður Atlético Madrid, komi til Lyon í sumar. Þær eigi að fylla skarðið sem Dzsenifer Marozsan og Sarah Bouhaddi skilji eftir sig en þær eru á leið til Utah Royals í Bandaríkjunum, þar sem Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir hefur verið á mála. Lyon hefur ekki staðfest fréttirnar en samkvæmt heimildum Vísis er fótur fyrir þeim.

Sara, sem er 29 ára, hefur kynnst því á eigin skinni hve sterkt lið Lyon er en hún var í liði Wolfsburg sem tapaði úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Lyon árið 2018, og þegar Wolfsburg féll úr keppni gegn Lyon í 8-liða úrslitum keppninnar í fyrra. Lyon hefur unnið Meistaradeildina oftast allra liða eða sex sinnum, þar af fjögur síðustu ár. Lyon er, líkt og Wolfsburg, komið í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar í ár en hlé er á keppninni og óvíst hvort og þá hvenær hún verði kláruð, vegna kórónuveirunnar.

Lyon er einnig sigursælasta lið í sögu frönsku 1. deildarinnar með 13 titla en liðið hefur orðið franskur meistari 13 sinnum í röð. Þá hefur Lyon unnið frönsku bikarkeppnina átta sinnum.


Tengdar fréttir

Sara Björk hvetur unga iðkendur til að halda áfram að hreyfa sig

Knattspyrnusamband Íslands vill gera sitt í að lyfta upp anda þjóðarinnar og hvetja hana til að halda áfram að hreyfa sig í samkomubanni. KSÍ fékk landsliðsfólkið til að taka þátt í þessu með sér. Ari Freyr Skúlason reið á vaðið í gær og í dag er það landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir sem tekur við keflinu.

Þjóðverjar fresta einnig

Keppni í fimm sterkustu deildum Evrópu hefur verið frestar vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×