Fótbolti

Ronaldinho fékk magnaða kveðju frá Messi í afmælisgjöf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og  Ronaldinho fagna marki saman þegar þeir léku hlið við hlið hjá Barcelona. Messi fékk ekki tíuna fyrr en Ronaldinho fór frá félaginu. 
Lionel Messi og  Ronaldinho fagna marki saman þegar þeir léku hlið við hlið hjá Barcelona. Messi fékk ekki tíuna fyrr en Ronaldinho fór frá félaginu.  Getty/Denis Doyle

Ronaldinho hélt upp á fertugsafmælið sitt um helgina og fékk örugglega ekki margar betri afmæliskveðjur en þá sem kom frá besta knattspyrnumanni heims.

Messi fékk Gullhnöttinn í sjötta sinn í byrjun desember en síðasti leikmaður Barcelona á undan honum til að fá þessi virtu Ballon d'Or verðlaun France Football var Ronaldinho árið 2005.

Þegar Lionel Messi var að alast upp í La Masia knattspyrn akademíunni þá var Ronaldinho kóngurinn í Barcelona. Ronaldinho lék með liðinu frá 2003 til 2008.

Ronaldinho situr nú í fangelsi í Paragvæ fyrir að reyna að ferðast með falsað vegabréf en það breytti ekki því að hann fékk afmæliskveðjur víðs vegar að úr heiminum.

Virðing Messi fyrir Ronaldinho hefur ekkert minnkað þrátt fyrir að Messi hafi síðan komist mun hærra og lengra á sínum ferli heldur en Brasilíumaðurinn. Það má sjá á afmæliskveðju hans hér fyrir ofan.

„Ég lít ekki á mig sem besta leikmanninn í sögu Barcelona af því að ég veit að það er Ronaldinho. Ég man vel eftir því að það var hann sem lagði upp fyrsta markið mitt fyrir Barcelona. Hann var ekki aðeins að gefa á mig boltann heldur var ég líka að taka við kyndlinum frá honum,“ skrifaði Lionel Messi.

Markið sem um ræðir kom í leik á móti Albacete 1. maí 2005. Hann var þá sá yngsti sem hafði skorað fyrir aðallið Barcelona.

Messi og Ronaldinho voru liðsfélagar í þrjú ár en þegar Ronaldinho fór frá félaginu þá fór Messi fyrst að blómstra. Lionel Messi hefur síðan orðið langmarkahæsti leikmaður félagsins og er nú kominn með yfir 600 mörk fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×