Innlent

Smári McCarthy smitaður af kórónuveirunni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Smári McCarthy er þingmaður Pírata.
Smári McCarthy er þingmaður Pírata. Vísir/Vilhelm

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, er smitaður af kórónuveirunni sem valdið getur sjúkdómnum COVID-19. Hann greinir frá þessu í færslu á Facebook-síðu sinni.

„Jæja. Það kom að því. Fyrir rúmri viku fór ég í sjálfskipaða sóttkví eftir að ég fór að fá hósta. Það kom á daginn í gær eftir prufu á föstudaginn að ég er búinn að vera með Covid-19 smit. Ég er þokkalega hress, einkennin mjög væg, hóstinn mestmegnis farinn og hitinn varð aldrei mikill,“ skrifar Smári.

Hann segir önnur einkenni koma og fara, auk þess sem hann kveðst heppinn hversu vægt ástand hans virðist vera. Hann sé nú kominn í tveggja vikna einangrun. Hann ætlar þó að reyna að sinna þingstörfum eftir bestu getu á meðan, í gegnum fjarfundi og símtöl.

„Ég veit ekki hvar ég smitaðist eða hvernig, það verður líklega aldrei vitað. Smitrakningarteymið sendi á mig skjal og gaf mér viðmiðunardagsetningu eftir samtal, og það ætti að vera búið að hafa samband við alla sem þurfa að fara í sóttkví eftir að hafa umgengist mig. Hvað Alþingi varðar hafa aðgerðirnar þar til að halda fólki í hæfilegri fjarlægð hver frá öðrum verið til þess að mitt smit ætti ekki að hafa teljandi áhrif á störfin þar,“ skrifar hann og bætir við að hann telji þó að smitum á Alþingi eigi eftir að fjölga þegar á líður.

Þá segist Smári gjarnan vilja hrósa heilsugæslunni í Miðbæ, smitrakningateymi almannavarna og lækninum sem hringdi í hann til þess að færa honum fréttirnar af því að hann hefði greinst með veiruna. Allt þetta fólk, ásamt öðrum starfsmönnum heilbrigðiskerfisins, sé að vinna þrekvirki þessa dagana.

„Við erum öll í þessu saman. Nú reynir á að við fylgjum reglunum, reynum að minnka smit eins mikið og hægt er, og reynum að komast í gegnum þetta. Stöndum saman og komum út sterkari. Pís!“ skrifar Smári að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×