Erlent

„Ef forsetinn bregst ekki við mun fólk deyja sem annars hefði lifað“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bill de Blasio, borgarstjóri New York-borgar, er ekki bjartsýnn á næstu mánuði.
Bill de Blasio, borgarstjóri New York-borgar, er ekki bjartsýnn á næstu mánuði. Vísir/Getty

Ástandið sem nú er uppi í New York-ríki í Bandaríkjunum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar COVID-19 á eftir að versna til muna, ef marka má spár Bill de Blasio, borgarstjóra New York-borgar. Hann segir að alvarlegur skortur á mikilvægum heilsuvörum sé á næsta leyti.

„Við erum um það bil tíu dögum frá víðtækum skorti,“ hefur BBC eftir borgarstjóranum.

„Ef við fáum ekki fleiri öndunarvélar mun fólk deyja.“

New York er það ríki Bandaríkjanna þar sem flest smit hafa verið staðfest, eða tæpur helmingur allra tilfella landsins. Rúmlega 31 þúsund hafa greinst á landsvísu og 390 látist, þar af 114 í New York. Þannig hafa um fimm prósent kórónuveirutilfella heimsins greinst í ríkinu.

„Allir Bandaríkjamenn eiga skilið að heyra sannleikann. Ástandið á aðeins eftir að versna. Raunar verða apríl og maí mun verri,“ sagði Blasio í dag.

Gagnrýnir Trump harðlega

Á föstudag undirritaði Donald Trump Bandaríkjaforseti yfirlýsingu um að hörmungarástand ríkti í New York. Þannig gat ríkið sótt milljarði dala í neyðaraðstoð úr alríkissjóðum, í stað þess að þurfa að treysta eingöngu á eigið fjármagn.

En, Blasio borgarstjóri er þrátt fyrir þennan stuðning gagnrýninn á viðbrögð ríkisstjórnar Trump við heimsfaraldrinum sem nú geisar.

Sjá einnig: Trump líkir kórónu­veirufar­aldrinum við stríðs­á­stand

„Ég get ekki verið nógu afdráttarlaus. Ef forsetinn bregst ekki við, mun fólk deyja sem annars hefði lifað. Þetta verður mesti samdráttur á landsvísu síðan Kreppan mikla varð,“ sagði Blasio.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.Getty/pool

Læknar víðs vegar um New York-ríki hafa greint frá skorti á heilbrigðisvörum og hlífðarfatnaði til handa framlínufólki í heilbrigðisgeiranum. Fréttir af yfirvofandi skorti á ýmsum nauðsynjavörum af heilbrigðistoga hafa einnig borist frá öðrum ríkjum Bandaríkjanna.

Þannig hafa stjórnvöld í Kaliforníu sett takmörk á það hverjir geti látið prófa sig fyrir kórónuveirunni. Eins segjast heilbrigðisyfirvöld í Washington-ríki óttast öndunarvélaskort strax í næsta mánuði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×