Fótbolti

Andri Rúnar og Arnór Smára rétta fram hjálparhönd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andri Rúnar í treyju Helsingborg.
Andri Rúnar í treyju Helsingborg. MYND/FACEBOOK-SÍÐA HELSINGBORGAR

Sænska úrvalsdeildarfélagið Helsingborg er í miklum fjárhagsvandræðum og ekki er ástandið vegna kórónuveirunnar að hjálpa til. Þeir Andri Rúnar Bjarnason og Arnór Smárason, tveir fyrrum leikmenn liðsins, hafa nú báðir lagt sitt af mörkum til að hjálpa félaginu á þessum erfiðu tímum.

Þannig er mál með vexti að félagið stefnir á að leika æfingaleik þar sem leikmannahópi liðsins verður skipt upp í tvö lið og keppt innbyrðis. Er þetta gert til að reyna fá auknar tekjur inn í félagið sem hefur líkt og önnur íþróttafélög orðið af miklum tekjum sökum þess að leikjum liðsins hefur verið frestað ótímabundið.

Samkomubannið í Svíþjóð þýðir að liðið má tæknilega séð spila innbyrðis en gæti það breyst fljótlega ákveði sænska ríkið að herða aðgerðir sínar til að hindra útbreiðslu veirunnar.

Stefnt er að því að selja í öll 16 þúsund sæti Ólympíuleikvangsins í Helsingborg þar sem liðið leikur heimaleiki sína. Það er þó ekki reiknað með neinum áhorfendum og kostar hver miði undir þúsund krónur íslenskar. Leiknum verður hins vegar sjónvarpað fyrir þá stuðningsmenn sem vilja fylgjast með.

Andri Rúnar og Arnór Smárason hafa báðir keypt fimm miða hvor en Andri leikur nú með Kaiserslautern í þýsku C-deildinni en þetta fornfrægafélag lék lengi vel í efstu deild. Arnór leikur í norsku úrvalsdeildinni með Lillestrøm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×