Innlent

Þrjú hand­tekin við Sælings­dal eftir bíla­stuld, bíl­veltu og að hafa veist að manni

Atli Ísleifsson skrifar
Reykhólasveit á Vestfjörðum.
Reykhólasveit á Vestfjörðum. Vísir/Vilhelm

Lögreglumenn frá Vesturlandi og Vestfjörðum handtóku í gærkvöldi tvo karlmenn og eina konu á Vestfjarðavegi við Sælingsdal eftir að þau höfðu stolið bílum, ekið undir áhrifum áfengis og fíkniefna og veist að manni sem ætlaði að koma þeim til aðstoðar.

Þetta kemur fram í færslu á Facebooksíðu lögreglunnar á Vestfjörðum. Þar segir að fólkið hafi verið handtekið klukkan 22:30.

„Fólkið var á tveimur bifreiðum, sem báðum hafði verið stolið fyrr um kvöldið í Reykhólasveit. Skömmu áður en lögreglan kom á vettvang hafði ökumaður velt annarri bifreiðinni en þó ekki hlotið alvarleg meiðsl. Fólk þetta var allt flutt í fangageymslur lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu í Reykjavík og munu yfirheyrslur yfir þeim fara fram síðar í dag.

Ökumenn þessara tveggja bifreiða eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þá er fólkið grunað um að hafa veist að manni sem ætlaði að koma því til aðstoðar, fyrr um kvöldið í Gufudal, en bifreið þremenninganna hafði fest þar. Fólkið er grunað um að hafa valdið manninum áverkum, auk þess að stela bifreið mannsins. Á leið fólksins fram hjá bænum Klukkufell í Reykhólasveit mun það hafa tekið aðra bifreið ófrjálsri hendi.

Rannsókn málsins er í höndum lögreglunnar á Vestfjörðum og ekki tímabært að veita frekari upplýsingar að svo stöddu,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×