Innlent

Tilmæli ESB byggi ekki á vísindalegum grunni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, við Ráðherrabústaðinn þar sem ríkisstjórnin fundaði í hádeginu.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, við Ráðherrabústaðinn þar sem ríkisstjórnin fundaði í hádeginu. Vísir/Sigurjón

Guðlaugur Þór Þórðarson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra, segja íslensk stjórnvöld hafa komið á framfæri mótmælum við sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi í gær.

 Forseti framkvæmdastjórnar ESB kallaði eftir því að ytri landamærum sambandsins yrði lokað og vildi fá aðildarríki Schengen, Ísland þar með talið, til að taka þátt í takmörkununum. Þetta segja íslensku ráðherrarnir tveir ekki byggja á heilbrigðis- eða vísindalegum grunni.

Íslenskir ráðamenn funduðu um tilmæli ESB í utanríkisráðuneytinu í gær, með sendiherra ESB á Íslandi. Þar segjast Guðlaugur og Áslaug hafa komið á fram mótmælum við þessari tillögu en að þó sé ekki búið að taka formlega afstöðu til hennar.

Guðlaugur Þór segir að hagsmunir Íslendinga, sem búa jú á eyju, séu fólgnir í því að hafa opnar flugleiðir. Þar að auki skorti vísindalegan grunn fyrir ákvörðun sem þessari.

„Þetta er ekki byggt á bestu mögulegu heilbrigðisupplýsingum. Þetta hefur engin áhrif núna, eins og staðan er, en það er mjög erfitt að sjá nein haldbær rök fyrir því að fara þessa leið," sagðir Guðlaugur Þór að loknum fundi í ráðherrabústaðnum nú í hádeginu.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.visir/vilhelm

Áslaug Arna tekur í sama streng, tilmæli ESB um ferðabann séu ekki rökstudd með vísun til heilbrigðis- eða vísindalegra sjónarmiða. Íslensk stjórnvöld telji aftur á móti ábyrgt að fara að tilmælum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í þessum efnum.

Áslaug segir að Ísland eigi nú í samskiptum við önnur ríki í svipaðri stöðu. Hún býst við því að formlegrar fyrirskipunar eða yfirlýsingar sé að vænta að loknum leiðtogafundi ESB í dag. Dagurinn verði því nýttur til að teikna upp mögulegar sviðsmyndir, viðbrögð og aðgerðir.


Tengdar fréttir

Mögulegt ferðabann hefur mikil áhrif á Icelandair

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að skoða þurfi uppsagnir eða lækkuð starfshlutföll komi til þess að íslensk stjórnvöld ákveði að landið taki þátt í fyrirhuguðu ferðabanni til Evrópusambandsins og Schengen-ríkjanna sem ætlað er að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar COVID-19.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×