Fótbolti

Man. City myndi hleypa Mahrez til PSG fyrir væna fúlgu

Sindri Sverrisson skrifar
Riyad Mahrez á æfingu Manchester City 12. mars.
Riyad Mahrez á æfingu Manchester City 12. mars. vísir/getty

Riyad Mahrez gæti verið á förum frá Englandsmeisturum Manchester City til Frakklandsmeistara PSG í sumar en hann mun þó kosta skildinginn.

Samkvæmt frétt Goal.com í dag munu forráðamenn Manchester City ekki standa í vegi fyrir því að Mahrez færi sig um set kjósi hann svo. Mahrez, sem er 29 ára gamall, hefur skorað 9 mörk og átt 14 stoðsendingar í 37 leikjum í öllum keppnum á leiktíðinni sem nú hefur verið gert hlé á vegna kórónuveirunnar.

Sérfræðingur Goal.com um Manchester City, Jonathan Smith, segir að enska félagið hafi reynt að fullvissa leikmenn um að liðið muni spila í Meistaradeild Evrópu næsta vetur, þrátt fyrir Evrópubannið sem UEFA setti félagið í. Það breyti því ekki að ákveðnir leikmenn kunni að vilja færa sig um set vegna óvissuástandsins.

Mahrez lék í Frakklandi til ársins 2014 þegar hann gekk í raðir Leicester frá Le Havre. Hann hefur orðið Englandsmeistari bæði með Leicester og Manchester City og unnið fleiri titla, auk þess að vera til að mynda kjörinn knattspyrnumaður Afríku árið 2016.

„Ef að hann [Mahrez] ákveður að þetta sé rétt skref fyrir hann þá mun Pep Guardiola ekki standa í vegi fyrir neinum sem vill ekki vera þarna. En það er erfitt að sjá að City láti hann fara fyrir minna en 80 milljónir punda,“ segir Smith, sérfræðingur Goal.com.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×