Fótbolti

Guðni segir að þriðja sæti riðilsins gæti mögulega skilað Íslandi á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sigurmark Íslands í lokaleiknum á móti Moldóvu og sá sigur gæti mögulega skilað íslenska liðinu inn á EM.
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sigurmark Íslands í lokaleiknum á móti Moldóvu og sá sigur gæti mögulega skilað íslenska liðinu inn á EM. Getty/Adam Nurkiewicz

Fjögur sæti eru enn laus á Evrópumótinu í knattspyrnu og þau áttu að vera í boði í umspilsleikjunum í mars. Umspilið er aftur á móti í uppnámi eftir að kórónuveiran er búin að stöðva leik út um allan heim.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, var gestur hjá Henry Birgi Gunnarssyni og Kjartani Atli Kjartanssyni í þættinum Sportið í dag á Stöð 2 Sport.

Guðni ræddi meðal annars umspilið og hvernig UEFA gæti leyst það að fylla liðakvótann á Evrópumótinu. Eru einhverjar líkur á því að EM fari fram í sumar?

„Nei ég held að það séu litlar líkur. Það er allt of stutt í það og ég er ekki að sjá það gerast. Það yrði sem dæmi mjög erfitt að koma fyrir umspilinu,“ sagði Guðni Bergsson en þar gætu opnast dyr fyrir íslenska liðið:

„Það er lausn í þessu sem okkur gæti hugnast. Það yrði að besti árangurinn í þriðja sæti yrði talinn eins og var fyrir Evrópumótið 2016 því þá værum við komin inn í úrslitakeppnina,“ sagði Guðni.

„Við náðum fínum árangri í undankeppninni og tókum þriðja sætið. Það myndi svo sannarlega hugnast okkur. Ég held að tímaramminn sé of knappur, óvissan of mikil og ég sé því ekki að niðurstaðan verði önnur en að fresta þessari keppnu um þó nokkurn tíma,“ sagði Guðni.

Íslenska liðið náði í nítján stig í riðlinum, vann sex af tíu leikjum og tapaði aðeins þremur. Markatalan var 14-11 eða 3 mörk í plús. Ekkert annað lið í þriðja sætið náði í 19 stig en næst kom Noregur með 17 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×