Enski boltinn

Man. United með fleiri stig en Liverpool síðan Bruno kom

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester United gerði frábær kaup í Bruno Fernandes sem hefur komið með beinum hætti að 32 mörkum í ensku úrvalsdeildinni á árinu 2020.
Manchester United gerði frábær kaup í Bruno Fernandes sem hefur komið með beinum hætti að 32 mörkum í ensku úrvalsdeildinni á árinu 2020. Getty/Matthew Ashton

Bruno Fernandes hefur gjörbreytt liði Manchester United síðan að félagið keypti hann frá Sporting fyrir ellefu mánuðum síðan og það sýna líka tölurnar.

Portúgalinn Bruno Fernandes var enn á ný örlagavaldurinn í gærkvöldi þegar Manchester United komst upp í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Bruno lagði þá upp sigurmark Marcus Rashford sem kom á þriðju mínútu í uppbótatíma leiksins.

Fernandes hefur þar með gefið sjö stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og hefur alls komið að 32 mörkum í 29 leikjum með United liðinu.

Það er ekkert skrýtið að spekingar séu farnir að bera áhrif Bruno Fernandes á liðið við þau áhrif sem Eric Cantona hafði á United þegar liðið endaði langa bið eftir Englandsmeistaratitlinum. United var búið að bíða í 26 ár þegar titilinn vannst loksins með hjálp Cantona árið 1993 en í vor verða liðin átta ár frá síðasta meistaratitli Manchetser United.

Það er mjög athyglisvert að skoða tölur Bruno Fernandes í ensku úrvalsdeildinni í samanburði við frammistöðu annarra leikmanna og liða síðan að Manchester United keypti hann 29. janúar síðastliðinn.

Bruno Fernandes hefur komið með beinum hætti að fimm mörkum fleira en næsti maður á þessum tíma. Sá sem er í öðru sætinu er Liverpool framherjinn Mohamed Salah. Salah hefur skorað fleiri mörk en Burno er með tvöfalt fleiri stoðsendingar.

Frammistaða Bruno er líka að hafa mikil áhrif á gengi Manchester United liðsins sem hefur fengið flest stig af öllum liðum deildarinnar síðan að Portúgalinn kom.

Manchester United hefur náð í 62 stig í 29 leikjum síðan 1. febrúar 2020 eða einu stigi meira en Liverpool liðið og sex stigum meira en nágrannar þeirra í Manchester City. Topplistana tvo má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×