Enski boltinn

Varsjáin hefur „tekið“ mest af Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Liverpool hópast að Craig Pawson dómara og eru allt annað en sáttir.
Leikmenn Liverpool hópast að Craig Pawson dómara og eru allt annað en sáttir. Getty/Robbie Jay Barratt

Staðreyndirnar tala sínu máli. Varsjáin hefur tekið mest að Englandsmeisturum Liverpool af öllum tuttugu liðum ensku úrvalsdeildarinnar.

Varsjáin er auðvitað til taks til að leiðrétta mistök dómara en oftar en ekki hefur hún verið að dæma eftir millimetrum eða í mjög tæpum atvikum sem hefur pirrað margan knattspyrnuáhugamanninn.

Stuðningsmenn Liverpool eru örugglega á taugum eftir þessa fyrstu mánuði tímabilsins enda hefur Varsjáin ekki verið liðinu hagstæð þar sem af er.

Jürgen Klopp og lærisveinar hans hafa átta sinnum þurft að horfa upp á VAR taka eitthvað af liðinu á þessu tímabili. Aðeins þrisvar hefur VAR dómur fallið með Liverpool liðinu.

Liverpool Echo sló upp samantekt frá ESPN þar sem má sjá lista yfir plús og mínus stöðu liðanna í deildinni út frá hagstæðum og óhagstæðum dómum myndbandadómaranna í Stockley Park.

Liverpooo er eina liðið sem er með fimm í mínus en er enn fremur í hópi sjö liða sem eru í mínus. Næstverst hefur Varsjáin bitnað á liði West Bromwich Albion. Wolverhampton Wanderers, Tottenham Hotspur, Arsenal, Leicester City og Fulham eru einnig í mínus.

Frægustu afskpti Varsjárinnar af Liverpool eru auðvitað í 2-2 jafnteflinu á móti Everton þegar sigurmark Jordan Henderson var dæmt af vegna mjög tæprar rangstöðu á Sadio Mane í aðdragandanum.

Liverpool fékk líka þrjá dóma á móti sér í 1-1 jafntefli á móti Brighton & Hove Albion þar sem mörk Mohamed Salah og Sadio Mane voru dæmt af og VAR dæmdi svo víti á Andrew Robertson í blálokin.

Það lið sem kemur best út úr Varsjánni eru Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton sem eru með þrjár fleiri hagstæða dóma en óhagstæða. Aðeins einu sinni á tímabilinu hefur VAR tekið eitthvað af Everton liðinu.

Næst á eftir eru Brighton & Hove Albion, Burnley, Chelsea, Newcastle United, Sheffield United og Southampton sem eru öll með tvö atvik í plús.

Svona er VAR-staðan á liðum ensku úrvalsdeildarinnar:

  • Everton +3
  • Brighton & Hove Albion +2
  • Burnley +2
  • Chelsea +2
  • Newcastle +2
  • Sheffield United +2
  • Southampton +2
  • Leeds +1
  • West Ham +1
  • Aston Villa 0
  • Crystal Palace 0
  • Manchester City 0
  • Manchester United 0
  • Fulham -1
  • Leicester City -1
  • Arsenal -2
  • Tottenham Hotspur -2
  • Wolves -2
  • West Brom -4
  • Liverpool -5



Fleiri fréttir

Sjá meira


×