Erlent

Tregir Frakkar: Aðeins fjórir af tíu hyggjast þiggja bólusetningu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bólusetningar hófust í Frakklandi á sunnudag.
Bólusetningar hófust í Frakklandi á sunnudag. epa/Thomas Samson

Aðeins fjórir af hverjum tíu Frökkum hyggst láta bólusetja sig gegn Covid-19, samkvæmt niðurstöðum könnunar Ipsos Global Advisor og World Economic Forum. 

Aðrar þjóðir sem virðast tregar til eru íbúar Rússlands, þar sem hlutfallið er 43 prósent, og íbúar Suður-Afríku, þar sem hlutfallið er 53 prósent. Um 80 prósent Kínverja hyggst láta bólusetja sig og 77 prósent Breta, samkvæmt könnuninni.

Helsta ástæða þess að menn veigra sér við bólusetningu er óttinn við aukaverkanir.

Frakkar hófu bólusetningar á sunnudag en þær hafa farið hægt af stað og fyrstu þrjá dagana voru aðeins um 100 manns bólusettir. Heilbrigðisráðherra landsins hefur hins vegar vísað gagnrýni á bug og sagt aðgerðirnar maraþon en ekki spretthlaup.

Frakkar eiga von á um 500 þúsund skömmtum af bóluefnum vikulega og veitir ekki af. Alls greindust 11.395 með Covid-19 síðasta sólahring og þá fjölgaði sjúkrahúsinnlögnum fjórða daginn í röð. 

2,57 milljónir hafa greinst með SARS-CoV-2 í Frakklandi og 64.078 látist, þar af 969 á síðastliðnum 24 klukkustundum.

Heilbrigðisráðherrann Olivier Véran sagði í dag að stjórnvöld myndu brátt koma á útgöngubanni frá kl. 18 á sumum svæðum í austurhluta landsins, í stað kl. 20.

Þó sagði hann ekki standa til að koma á hertum takmörkunum almennt, jafnvel þótt fjöldi daglegra smita sé langt yfir 5.000 smita viðmiði stjórnvalda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×