Innlent

Bóluefnið kemur með flugi í fyrramálið

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Von er á fyrstu skömmtum bóluefnis gegn covid-19 með flugi til landsins eftir nokkrar klukkustundir. 
Von er á fyrstu skömmtum bóluefnis gegn covid-19 með flugi til landsins eftir nokkrar klukkustundir.  Getty/Alvaro Calvo

Það hefur vart farið fram hjá neinum að von er á fyrstu skömmtunum af bóluefni gegn covid-19 til landsins í fyrramálið. Bólusetning hófst víðast hvar í aðildarríkjum Evrópusambandsins í dag en von er á tíu þúsund skömmtum af bóluefni Pfizer-BioNTech með fyrstu sendingunni sem væntanleg er með flugi til Íslands í fyrramálið.

Fyrstu skammtarnir ættu að duga til að bólusetja fimm þúsund manns en búist er við að Ísland muni fá þrjú til fjögur þúsund skammta í hverri viku til loka mars á næsta ári.

Stefnt er að því að tekið verði á móti fyrstu skömmtum bóluefnisins fyrir hádegi við vöruskemmu fyrirtækisins Distica sem mun sjá um hýsingu og dreifingu bóluefnisins. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og þríeykið svokallaða verða meðal þeirra sem viðstödd verða afhendinguna.

Stefnt er að því að bólusetning hefjist strax á þriðjudaginn en það verður tiltekinn hópur heilbrigðisstarfsfólks og íbúar hjúkrunarheimila sem verða meðal hinna fyrstu til að verða bólusettir hér á landi. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu verður undirbúin viðhöfn þegar fyrsta bólusetningin fer fram. Heilbrigðisráðherra hefur birt reglugerð um bólusetningu á Íslandi en íslenska ríkið hefur þegar gert samninga um kaup á bóluefni við nokkur lyfjafyrirtæki.

Óhætt er að segja að nokkur eftirvænting ríki fyrir komu bóluefnisins líkt og ráða má til að mynda af umræðu á samfélagsmiðlum.

Líkt og fram hefur komið hefur sóttvarnalæknir viðrað þá hugmynd við Pfizer um að Ísland verði notað undir fjórða fasa rannsóknar bóluefnisins, sem myndi felast í því að bólusetja um 60 prósent fullorðinna einstaklinga á Íslandi og sjá hvaða áhrif það hefði á faraldur kórónuveirunnar. Þórólfur Guðnason og Kári Stefánsson munu í sameiningu funda með fulltrúum Pfizer eftir helgi vegna þessa. 

Einhverjir hafa velt vöngum yfir því hvort þyki siðferðislega rétt að Ísland fái meira bóluefni á undan öðrum.


Tengdar fréttir

Bólu­setningar hefjast innan Evrópu­sam­bandsins

Aðildarríki Evrópusambandsins munu hefja bólusetningar gegn kórónuveirunni sem veldur Covid-19 í dag. Dagsetningin 27. desember var ákveðin fyrr í mánuðinum og áttu bólusetningar að hefjast sama dag innan sambandsins til þess að sýna fram á samstöðu ríkjanna.

Kári og Þórólfur munu funda saman með Pfizer

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segist eiga náið samstarf með Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni. Þeir séu ekki í neinu stríði og hann ætli sér að taka Þórólf með sér á næsta fund með lyfjaframleiðandanum Pfizer.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×