Innlent

Sala á fasteignum líklega ekki verið meiri í fimm ár

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Páll telur að fasteignaverð muni halda áfram að hækka á næsta ári. 
Páll telur að fasteignaverð muni halda áfram að hækka á næsta ári.  Vísir/Vilhelm

Eftirspurn eftir fasteignum hefur sjaldan verið meiri þrátt fyrir heimsfaraldur, segir fasteignasali. Framboðið sé hins vegar alltof lítið sem hafi leitt af sér ríflega sjö prósenta hækkun á fasteignaverði á þessu ári.

Mikið líf hefur verið á fasteignamarkaði í ár þrátt fyrir svartsýnar spár um að heimsfaraldurinn myndi höggva skarð í söluna. Þannig má sem dæmi nefna að frá september fram í nóvember voru þrjú þúsund íbúðir á höfuðborgarsvæðinu teknar af sölulista, en Páli Pálssyni fasteignasala reiknast til að þetta sé tæplega tíu prósent meiri sala í ár en í fyrra. Hann segir söluna ekki hafa verið meiri í fimm ár.

„Menn sáu það til dæmis í aprílmánuði að þá droppaði salan niður í 54 prósent á milli ára en var mjög fljót að jafna sig. Við erum að sjá sirka tíu prósent meiri sölu á þessu ári heldur en árin í fyrra. Þetta er líklega sölumesta árið síðustu fimm ár,” segir Páll. 

Páll bendir á að mikill skortur sé á húsnæði, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það hafi leitt af sér hærra fasteignaverð, en samkvæmt Þjóðskrá hefur fasteignaverð hækkað um 7,2 prósent síðustu tólf mánuði og fimm prósent síðustu sex mánuði. Alls voru 7596 eignir seldar á höfuðborgarsvæðinu í ár, borið saman við 6926 á síðasta ári. Hann telur að að öllu óbreyttu muni verð halda áfram að hækka.

„Það þarf klárlega að auka lóðaframboð í sveitarfélögunum og það þurfa að koma inn fleiri nýbyggingar. Ég sé fyrir mér að það vanti bara núna ekki undir 1000 íbúðir.”

Þá hafi mikið verið um fyrstu kaup, sem sé meðal annars vegna hagstæðari húsnæðislána.

„Stýrivextir hafa lækkað um 75 prósent á þessu ári og það er klárlega að hjálpa ungu fólki eða fyrstu kaupendum að komast inn á markaðinn, en á móti kemur að þetta sama fólk þarf meira eigið fé vegna þess að verð hefur verið að hækka,” segir Páll.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.