Erlent

Gerðu hús­leit í tengslum við sprenginguna í Nas­hvil­le

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá vettvangi sprengingarinnar.
Frá vettvangi sprengingarinnar. Thaddaeus McAdams/Getty

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, gerði húsleit hjá einstaklingi sem talinn er tengjast mikilli sprengingu sem varð í borginni Nashville í Tennessee í Bandaríkjunum í gærmorgun.

Frá þessu greinir Guardian. Þrír særðust þegar húsbíll sprakk fyrir utan byggingu í eigu fjarskiptafyrirtækisins AT&T í borginni. Nú hafa lögregluyfirvöld gert húsleit í úthverfi Nashville vegna málsins.

„Upplýsingar sem við höfum fengið við rannsókn málsins hafa leitt okkur að þessu heimilisfangi,“ hefur Guardian eftir Darrell DeBusk, fulltrúa FBI. Kvaðst hann ekki vita til þess að nokkur hefði verið handtekinn vegna málsins.

CBS-fréttastofan hefur þá greint frá því að hinn 63 ára gamli Anthony Quinn Warner, íbúi á Nashville-svæðinu, hafi átt samskonar húsbíl og þann sem sprakk í gærmorgun.

Varaði við því að bíllinn myndi springa

Aðdragandi sprengingarinnar hefur vakið mikla athygli. Lögregla hafði upphaflega verið kölluð til vegna skothvella sem heyrðust á svæðinu skömmu fyrir klukkan sex að staðartíma í gærmorgun. Þegar komið var á vettvang heyrðist viðvörun úr hátalarakerfi sem var á bílnum um að hann myndi springa, sem hann svo gerði nokkrum mínútum síðar.

Sprengingin olli truflunum á fjarskiptakerfum í ríkinu, auk þess sem miklar skemmdir urðu á nærliggjandi byggingum og vatn flæddi niður veggi þar sem sprengingin olli skemmdum á lögnum húsa nálægt vettvangi.

Lögreglan í Nashville hefur birt myndir af bílnum á samfélagsmiðlum í von um að verða ágengt í rannsókn málsins.


Tengdar fréttir

Sprenging í Nashville talin vera viljaverk

Mikil sprenging varð í borginni Nashville í Tennessee-ríki í gærmorgun þegar húsbíll sprakk fyrir utan byggingu í eigu fjarskiptafyrirtækisins AT&T. Þrír slösuðust í sprengingunni, en fólk á svæðinu hafði verið varað við og beðið um að yfirgefa svæðið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×