Erlent

Sprenging í Nashville talin vera viljaverk

Sylvía Hall skrifar
Nokkrum götum í borginni var lokað eftir sprenginguna.
Nokkrum götum í borginni var lokað eftir sprenginguna. Getty/Terry Wyatt

Mikil sprenging varð í borginni Nashville í Tennessee-ríki í gærmorgun þegar húsbíll sprakk fyrir utan byggingu í eigu fjarskiptafyrirtækisins AT&T. Þrír slösuðust í sprengingunni, en fólk á svæðinu hafði verið varað við og beðið um að yfirgefa svæðið.

Lögregla hafði upphaflega verið kölluð til vegna skothvella sem heyrðust á svæðinu skömmu fyrir klukkan sex að staðartíma í gærmorgun. Þegar komið var á vettvang heyrðust varnaðarorð frá bílnum sem sprakk nokkrum mínútum síðar. Lögregla telur ólíklegt að um slys hafi verið að ræða og gengur út frá því að sprengingin hafi verið viljaverk.

Samkvæmt breska ríkisútvarpinu var sprengingin svo öflug að lögreglumaður á vettvangi féll til jarðar og röskun varð á fjarskiptakerfum í ríkinu. Miklar skemmdir urðu á nærliggjandi byggingum og vatn flæddi niður veggi þegar lagnir í húsum skemmdust.

Töluverðar skemmdir urðu á húsum nærri sprengingunni.Getty/Terry Wyatt

Ekki er vitað hver stóð að baki sprengingunni en nokkrir hafa verið færðir til yfirheyrslu samkvæmt AP fréttaveitunni. Þá liggur ekki fyrir hvort einhver hafi verið í bílnum þegar sprengingin varð, en bandarískir miðlar greina frá því að lík hafi mögulega fundist nærri staðnum sem sprengingin varð.

Lögreglan í Nashville hefur birt mynd af bílnum á Twitter-síðu sinni og óskað eftir upplýsingum frá almenningi. Þar segir að bílnum hafi verið keyrt inn götuna skömmu eftir klukkan eitt aðfaranótt jóladags þar sem hann sprakk nokkrum klukkustundum síðar



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×