Innlent

Glæsilegt jólaþorp á Selfossi og sextíu Múmínbollar

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Jólabörnin á Selfossi, Oddný Sigríður og Arnór Breki, sem eiga heiðurinn af jólaþorpinu á heimilinu og uppsetningu þess.
Jólabörnin á Selfossi, Oddný Sigríður og Arnór Breki, sem eiga heiðurinn af jólaþorpinu á heimilinu og uppsetningu þess. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Margir setja upp jólaþorp inni hjá sér yfir hátíðirnar en stærð þeirra getur verið æði mismunandi. Á Selfossi er eitt risa jólaþorp sem móðirin á heimilinu og yngsta barnið sjá alltaf um að setja upp. Húsmóðirin á einnig sextíu Múmínbolla.

Oddný Sigríður og Arnór Breki sem búa í Lóurima 11 með fjölskyldu sinni á Selfossi eiga heiðurinn af glæsilega jólaþorpinu á heimilinu en það er alltaf sett upp í byrjun nóvember. Oddný er mikið jólabarn.

„Já, allavega í seinni tíð þegar krakkarnir komu og yngsti er algjör jólagemsi, hann peppar mig upp þessu. Við erum með lest, hestvagn, myllu, nokkrar kirkjur og fullt af öðru skemmtilegu í jólaþorpinu,“ segir Oddný.

Hún segist hafa verið um viku að setja þorpið upp með aðstoð Arnórs Breka, sem er líka mikið jólabarn.

Jólaþorpið er glæsilegt og nýtur sér vel í húsinu í Lóurima 11 á Selfossi hjá Oddnýju Sigríði Gísladóttur og fjölskyldu hennar.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Þetta er mjög flott og stórt. Þegar vinir mínir koma hingað þá eru þeir mjög mikið að horfa á þetta. Síðan er mjög gaman að kveikja á lestinni,“ segir Arnó Breki.

En það eru ekki bara jólaþorp í Lóurima 11, þar er líka fullt af Múmínbollum, sem Oddný safnar.

„Já, maður þarf að drekka kaffi úr einhverju. Þetta eru tæplega sextíu bollar en ég hef ekki keypt brot af þessu því mágkonan og ég erum erum með góðan díl, ef það kemur nýr bolli, sem okkur finnst flottur þá gefur hún mér og ég henni til baka svo við þurfum ekki að kaupa þá sjálfar,“ segir Oddný og hlær.

Oddný Sigríður á tæplega sextíu Múmínbolla, sem hún hefur safnað í gegnum árin og er enn að safna slíkum bollum.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×