Fótbolti

Var í veikinda­leyfi vegna höfuð­á­verka en var samt rekinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Nielsen hefur fengið sparkið.
Nielsen hefur fengið sparkið. Lars Ronbog/Getty

Danska úrvalsdeildarfélagið Lyngby tók í gær stóra ákvörðun. Þeir ráku þjálfarann Christian Nielsen sem hefur ekkert verið á hliðarlínunni að undanförnu.

Þann 18. nóvember tilkynnti Lyngby að Christian væri farinn í veikindaleyfi. Nielsen fékk boltann í höfuðið af stuttu færi á æfingu og fékk heilahristing.

Það endaði með því að hann tók sér veikindaleyfi og var í því út árið. Hann fékk hins vegar tilkynningu í gær að það væri búið að reka hann. Ballið væri búið í Lyngby.

Christian Nielsen var ráðinn til Lyngby í maí 2019. Hann kom liðinu á ótrúlegan hátt upp í dönsku úrvalsdeildina og hélt liðinu uppi á síðustu leiktíð.

Lyngby byrjaði ekki vel á þessari leiktíð en liðið hefur einungis náð í fjögur stig í fyrstu þrettán leikjunum. Þeir hafa enn ekki unnið leik í deildinni.

Carit Falch tók við liðinu af Nielsen í haust og hann mun stýra liðinu út tímabilið. Hann hefur einnig þjálfað í Grikklandi og U21 árs landslið Litháen.

Markvörðurinn Frederik Schram leikur með Lyngby. Hann hefur enn ekki leikið í dönsku úrvalsdeildinni það sem af er leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×