Innlent

Telur ekki á­stæðu til að grípa til harðari að­gerða á landa­mærum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi á dögunum.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi á dögunum. Almannavarnir

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, telur ekki ástæðu á þessu stigi til þess að grípa til harðari aðgerða á landamærum hér þrátt fyrir nýtt afbrigði kórónuveirunnar sem greinst hefur í Bretlandi og virðist vera meira smitandi en önnur afbrigði.

Fulltrúar aðildarríkja Evrópusambandsins munu ræða það í dag hvernig taka skuli á þessu nýja afbrigði veirunnar sem grasserar nú í Bretlandi.

Danir og Finnar bættust í morgun við þann hóp þjóða sem hafa bannað komu allra flugvéla frá Bretlandi vegna útbreiðslunnar. Áður höfðu meðal annars Þjóðverjar, Frakkar, Svíar og Ítalir þegar aflýst öllum flugferðum frá Bretlandi.

Rætt var við Þórólf í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Var hann meðal annars spurður út í það hvers vegna Ísland væri ekki líka búið að loka á Bretland en í dag er von á einni vél til landsins frá London.

Þórólfur kvaðst hafa fundað í gær með vísindamönnum frá Bretlandi ásamt fulltrúum annarra Evrópuþjóða. Á fundinum fóru bresku vísindamennirnir yfir sín gögn varðandi nýja afbrigðið.

„Þeir hafa náttúrulega reiknað þetta út hjá sér Bretarnir að veiran sé líklega, hún smiti meira eða er fljótari að fara yfir en aðrar veirur af Covid og færðu fyrir því alls konar útreikninga og rök. […] En þetta eru náttúrulega ekki endanleg sannindi en þetta eru sterkar vísbendingar um það en það virðist ekki vera að veiran sé verri, hún veldur ekkert verri sjúkdómi,“ sagði Þórólfur.

Þá benti hann á að hafa þyrfti í huga að þær aðgerðir sem verið væri að grípa til erlendis nú vegna þessa nýja afbrigðis væru vegna þess að þjóðirnar hefðu hingað til ekki verið með neinar sérstakar aðgerðir á sínum landamærum.

„Það hefur enginn verið með þessa tvöföldu skimun eins og við. Nú eru til dæmis Norðmenn að taka upp þessa tvöföldu skimun gagnvart Bretum eins og við erum með. Þannig að við erum búin að vera með þetta allan tímann. Við erum að reyna að grípa til þeirra aðgerða sem lágmarki hættuna á því að veiran komist hérna inn þannig að það eru aðrar þjóðir eru kannski aðeins að færa sig nær því sem við erum að gera með þessum aðgerðum. Ég tel ekki ástæðu fyrir okkur á þessu stigi að fara í miklu harðari aðgerðir á landamærunum,“ sagði Þórólfur.

Einn hefur greinst hér á landi með þetta nýja afbrigði. Það var við seinni landamæraskimun í byrjun desember.

„Hann var settur í einangrun og það hefur ekki orðið neitt smit út frá honum þannig að ég held að við séum að gera þetta eins vel á landamærunum gagnvart öllu og líka ef eitthvað svona kemur upp og hægt er,“ sagði Þórólfur.

Hlusta má á viðtalið við hann í heild sinni í spilaranum ofar í fréttinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×