Fótbolti

Al-Arabi leikur til úr­slita í fyrsta skipti í 27 ár

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron Einar Gunnarsspon fær vonandi næg tækifæri til að fagna í úrslitaleik morgundagsins.
Aron Einar Gunnarsspon fær vonandi næg tækifæri til að fagna í úrslitaleik morgundagsins. Al-Arabi

Íslendingalið Al-Arabi leikur til úrslita í Emír bikarnum á morgun. Þó gengið í deildinni hafi ekki verið gott þá hefur liðinu gengið vel í bikarnum og er leikurinn besti möguleiki liðsins til að komast í Meistaradeild Asíu.

Lærisveinar Heimis Hallgrímssonar eiga erfiðan leik fyrir höndum á Al Rayyan-vellinum á morgun. Verið er að vígja völlinn sem verður notaður fyrir HM 2022. Liðin hafa mæst í bikarúrslitum áður á þessu ári en að þessu sinni er það aðalbikarkeppnin í Katar.

Emírinn af Katar, Tamim bin Hamad Al Thani, verður meðal áhorfenda og mun veita verðlaunin.

Fyrir fram er mótherji morgundagsins talinn líklegri til afreka en Al-Sadd. Spænska goðsögnin Xavi er við stjórnvölin þar og hefur liðið ekki enn tapað leik í deildinni. Það er svo annar Spánverji sem stýrir spili liðsins inn á vellinum en Santi Cazorla, fyrrum leikmaður Arsenal og Villareal, gekk í raðir Al-Sadd fyrir tímabilið.

Það kemur því ekki á óvart að þegar níu umferðum er lokið trónir liðið á toppi deildarinnar með átta sigra og eitt jafntefli.

Heimir þekkir það vel að fara inn í leiki gegn liðum sem eru talin betri á pappír og það sama má segja um landsliðsfyrirliðann Aron Einar Gunnarsson. 

Það má því vonandi reikna með hörkuleik en eins og áður sagði þá er mikið undir þar sem sigurvegarinn vinnur sér inn sæti Meistaradeild Asíu. Þangað hefur Al-Arabi ekki komist á þessari höld.

Ásamt Heimi eru þeir Freyr Alexandersson og Bjarki Már Ólafsson í þjálfarateymi Al-Arabi. Það má því reikna með íslensku yfirbragði á leik liðsins á morgun.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.