Innlent

Fjöl­menningar­ráð vill greinar­gerð frá Fjöl­skyldu­hjálp eftir að fleiri stíga fram og lýsa mis­munun

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Sabine Leskopf er formaður fjölmenningarráðs Reykjavíkurborgar og Ásgerður Jóna Flosadóttir er formaður Fjölskylduhjálpar Íslands.
Sabine Leskopf er formaður fjölmenningarráðs Reykjavíkurborgar og Ásgerður Jóna Flosadóttir er formaður Fjölskylduhjálpar Íslands. vísir

Fjölmenningarráð Reykjavíkurborgar hefur farið fram á að Fjölskylduhjálp Íslands skili greinargerð um hvernig tryggt sé að þar sé unnið gegn mismunun við úthlutun til skjólstæðinga. Formaður ráðsins segir skjólstæðinga og sjálfboðaliða af erlendum uppruna hafa lýst mismunun í starfi samtakanna.

Fyrrverandi sjálfboðaliði og skjólstæðingur hjá Fjölskylduhjálp Íslands sagðist í fréttum í  síðustu viku hafa ákveðið að hætta að starfa með samtökunum eftir að hún hafi orðið vitni að mismunun á grundvelli trúarbragða við úthlutun matvæla. 

Í frétt á heimasíðu Fjölskylduhjálpar Íslands frá því í síðustu viku kemur fram að 58% skjólstæðinga þeirra séu af  erlendum uppruna og því er hafnað að nokkur mismunun eigi sér stað við úthlutun matvæla.

Samtök kvenna af erlendum uppruna brugðust við fréttaflutningnum í síðustu viku með því að senda frá sér ályktun þar sem borgarstjórn er hvött til að rannsaka hvort að slík mismunun eigi sér stað og ef það komi í ljós að draga til baka það fjármagn sem samtökin fái. 

Sabine Leskopf formaður Fjölmenningarráðs borgarinnar segir að ráðið hafi óskað eftir skýringum frá Fjölskylduhjálp. Borgin hafi styrkt samtökin um eina og hálfa milljón í ár og því sé mikilvægt að fá svör þaðan.

„Við óskuðum eftir skýringum frá Fjölskylduhjálp en viðbrögð þeirra tókust ekki á við þær fullyrðingar sem komu fram í fréttinni. Þau voru bara staðfesting á það væri fjöldi útlendinga sem leitaði til þeirra,“ segur Sabine. 

Sabine segir að fulltrúi Samtaja kvenna af erlendum uppruna sitji í Fjölmenningarráði og rætt hafi verið um málið á fundi þess í gær.

„Við fengum staðfestingu frá fulltrúa kvenna í Samtökum kvenna af erlendum uppruna um að konur hafa upplifað mismunun hjá Fjölskylduhjálp. Jafnvel áreitni og þarna kom líka fyrrverandi sjálfboði  undir nafni og sagði frá sinni upplifun. Hún staðfesti að hún hefði orðið vör við mikla mismunun, mikið væri niðrandi  ummæli og jafnvel mismunun í úthlutun matvæla varðandi magn eða gæði.

Bókun Fjölmenningarráðs

Sabine Leskopf segir að Fjölmenningarráðið hafi einum rómi bókað eftirfarandi í gær:

Fjölmenningarráðið Reykjavíkurborgar tekur heilshugar undir þær áhyggjur sem koma fram í yfirlýsingunni frá Samtökum kvenna af erlendu uppruna varðandi framkomu Fjölskylduhjálpar í garð skjólstæðinga sinna af erlendum uppruna.

Ráðið óskar eftir að mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa fari fram á það við Fjölskylduhjálp Íslands að skilað sé greinagerð um hvernig tryggt sé að unnið sé gegn mismunun og að jafnrétti við úthlutun samtakanna. Þetta er í samræmi við grein 12.3. í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og styrkjareglum Reykjavíkurborgar. Ráðið óskar jafnframt eftir að upplýsa Velferðarráðið um þessar áhyggjur fulltrúa grasrótarinnar sem beint voru til þess.

Ráðið þakkar jafnframt fyrir kynningu á stöðu tillögu um átak gegn fordómum sem samþykkt var á fundi bogarstjórnar og fjölmenningarraráðs í febrúar 2019 og var í frekar útfærslu samþykkt á sameiginlegum fundi ofbeldisvarnar, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs sem og menningar- íþrótta og tómastundaráðs þann 19. nóvember s.l um sameiginlegt átak gegn formdómum hjá öllum starfsstöðum borgarinnar. Ráðið óskar eftir að fá að fylgjast með frekari útfærslu verkefnisins.


Tengdar fréttir

Fjölskylduhjálp segir meirihluta skjólstæðinga vera af erlendum uppruna

Fjölskylduhjálp Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ásakana sem fram hafa komið í fjölmiðlum þess efnis að samtökin hafi mismunað skjólstæðingum sínum á grundvelli uppruna. Í yfirlýsingunni sem birtist á vef Fjölskylduhjálpar í gær er tekið fram að 58% skjólstæðinga séu með erlent ríkisfang og að gagnrýnin byggi á „staðreyndavillum.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.