Fótbolti

Ís­land vígir endur­bættan þjóðar­leik­vang Fær­eyja

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ísland heimsækir Færeyjar sumarið 2021 og vígir nýjan þjóðarleikvang þeirra. Ef til vill verða þeir Guðlaugur Victor Pálsson, Hörður Björgvin Magnússon og Hólmar Örn Eyjólfsson í liði Íslands þá.
Ísland heimsækir Færeyjar sumarið 2021 og vígir nýjan þjóðarleikvang þeirra. Ef til vill verða þeir Guðlaugur Victor Pálsson, Hörður Björgvin Magnússon og Hólmar Örn Eyjólfsson í liði Íslands þá. Vísir/Vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mun mæta Færeyjum ytra í æfingaleik næsta sumar. Verður leikurinn fyrsti opinberi leikur á endurbættum Þórsvelli, þjóðarleikvangi Færeyja.

Knattspyrnusamband Íslands gaf út tilkynningu þess efnis að Ísland myndi mæta Færeyjum ytra þann 4. júní á næsta ári. Um væri að ræða fyrsta opinbera leik á endurbættum Þórsvelli. Þá hefur leiktíminn verið staðfestur en leikurinn hefst klukkan 19.45 að íslenskum tíma.

Samkvæmt frétt KSÍ mun völlurinn taka allt að fimm þúsund manns í sæti eftir endurbætur eða um það bil tíu prósent af íbúafjölda Færeyja.

Alls hafa A-landslið þjóðanna mæst 25 sinnum í karlaflokki. Ísland hefur unnið 23 af þessum 25 leikjum, einn hefur endað með jafntefli og Færeyjar hafa unnið einn. Markatalan er 72-25 Íslandi í vil.

Komin eru rúm sjö ár síðan liðin mættust síðast. Var það þann 14. ágúst 2013 á Laugardalsvelli og lauk leiknum með 1-0 sigri Íslands. Kolbeinn Sigþórsson með sigurmarkið þann daginn.

Færeyjar hafa þó sótt í sig veðrið undanfarið og fór landslið þeirra til að mynda taplaust í gegnum sinn riðil í Þjóðadeildinni. Þrír sigrar og þrjú jafntefli niðurstaðan í riðli sem innihélt Lettland, Andorra og Möltu. Þá er úrvalsdeild Færeyja hærra skrifuð en sú íslenska á styrkleikalista UEFA sem stendur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.